Sæunn sýnir í Gallerí Ormi

Sæunn Þorsteinsdóttir, myndlistarkona, opnar sýninguna „Mynstur“ í Gallerí Ormi, Sögusetrinu Hvolsvelli, sunnudaginn 21. ágúst kl.16:00.

Sæunn finnur gömlum íslenskum landshlutakortum og alls kyns öðrum pappír nýtt hlutverk með því að brjóta pappírinn í ýmis origami form og raða saman í hringmynstur sem hún saumar eða límir á strigaklædda blindramma. Á sýningunni verða einnig málverk, bæði akrýl og vatnslitamyndir, unnin út frá mynstrum sem prýða útskurðargripi í Skógasafni.

Sæunn er uppalin á Skógum undir Eyjafjöllum en hefur á fullorðinsárum búið í Reykjavík, Suðurnesjum, Norðurlandi og Mosfellssveit.

Íslenskt landslag, litir þess og form eru Sæunni hugleikin auk þess sem hún hefur alla tíð verið heilluð af fortíðinni og því hvernig fortíðin fléttast saman við samtímann og vísar veg til framtíðar.

Sýningin stendur frá 21ágúst – 15.september. Opið alla daga á opnunartíma Sögusetursins kl. 9-18.

Allir velkomnir.