Sæmundur gefur út „Fardaga“ Ara Trausta

Í tilefni af Viku bókarinnar gefur Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi út ljóðabókina „Fardaga“ eftir Ara Trausta Guðmundsson. Þetta er fyrsta bók útgáfunnar á þessu ári.

Bókaútgáfan Sæmundur er hluti af rekstri Bókakaffisins á Selfossi.

Fardagar ─ þankar um hringleið, er sjöunda ljóðabók Ara Trausta sem hefur einnig sent frá sér fjölda af fræðiritum og skáldsögum. Þessi nýjasta bók Ara Trausta tengist annarri bók hans sem út kemur í sumarbyrjun en í eftirmála segir höfundur:

Árið 2014 samdi ég um 120 ljóð á ensku til þess að vinnu úr efni í bók um Ísland. Hún liggur fyrir í sumarbyrjun 2015 og heitir Primordial Landscapes: Iceland Revealed (útg. Power House Books – powerhousebooks.com). Hvert ensku ljóðanna á beinlínis við ljósmynd eftir bandaríska ljósmyndarann og kvikmyndagerðarmanninn Feodor Pitcairn frá Bryn Athyn, skammt frá Fíladelfíu. Haustið 2014 og fram eftir vetri 2015 vann ég um fimmtíu ljóð í þessa bók upp úr þeim ensku án þess þó að þýða enska texta beint yfir á íslensku, nema í sumum tilvikum. Þess utan tengdi ég ekki hvert ljóð við mynd Feos heldur reyndi að ímynda mér einhvern stað á leið kringum landið sem ljóðið gæti átt við.

Fardagar er 54 síðna kilja, prýdd myndverkum höfundar en um bókarhönnun sá Aðalsteinn Svanur Sigfússon. Bókin er prentuð hjá Leturprenti.

Fyrri greinEkki byrjað að sekta strax
Næsta greinHvergerðingum fjölgar vel umfram landsmeðaltal