Rúrí – samtal á sunnudegi

Listakonan Rúrí verður með sýningarspjall í Listasafni Árnesinga, sunnudaginn 17. júlí kl. 15:00 á á sýningunni TÍMA – TAL.

Titill sýningarinnar getur falið í sér þá túlkun að boðið sé upp á sam-tal við sam-tímann og það er það sem boðið er upp á þegar Rúrí gengur um sýninguna og ræðir við gesti um verk sín.

Það er líka áhugavert að fá tækifæri til þess að sjá verk sem hafa verið sýnd víða en aldrei fyrr hér á landi og einnig eru á sýningunni verk sem listamaðurinn vann sérstaklega fyrir sýninguna og vakið hafa athygli gesta.

Mæling tímans út frá gangi sólar hefur lengi verið viðfangsefni Rúríar og í verki hennar Sólgátt sem senn rís við Sólheima í Grímsnesi er það einmitt einn af útgangspunktunum. Á sýningunni má sjá verk sem ber heitið Sólheimur þar sem finna má þær grunnforsendur sem útilistaverkið byggir á.