Tónlistarkonan Alda Björk snýr nú aftur með sína fyrstu plötu í fimm ár: Sagan af Rosa Lee. Alda Björk lýsir plötunni sem „hljóðbók með tónlist“ í tón og útfærslu og markar hún nýjan kafla í síbreytilegri listsköpun tónlistarkonunnar.
„Sagan af Rosa Lee er minimalísk hugmyndaplata sem flytur persónulega sögu í gegnum tónlistarlega frásögn. Þetta er djúpt persónulegt og hugmyndaríkt verk,“ segir Alda Björk í samtali við sunnlenska.is og bætir við að platan hafi í raun verið skrifuð fyrir tuttugu árum.
„Rosa Lee er bæði raunveruleg og ímynduð. Hún er spegilmynd af fortíð minni, af fólki sem ég hef elskað og raddirnar sem ég ber með mér,“ bætir Alda við en platan rekur lauslega sjálfsævisögu og fléttar saman minningar, einveru, seiglu og sjálfsmynd. Hvert lag þróast síðan í hljóðrænni dagbók og býður hlustendum sjaldgæfa innsýn í innri heim Öldu.
Sagan af Rosa Lee er aðgengileg á öllum helstu streymisveitum en hún kom út síðastliðinn laugardag.
Einn farsælasti tónlistarmaður Íslands
Öldu Björk þarf ekki að kynna fyrir tónlistaráhugafólki en hún er einn farsælasti tónlistarmaður Íslands með yfir 5 milljónir platna seldar um allan heim. Seint á tíunda áratugnum og snemma á fyrsta áratug 21. aldar var hún rísandi stjarna búsett í London í Bretlandi en þangað flutti hún árið 1989 til að elta draum sína um farsælan alþjóðlegan tónlistarferil. Áður en Alda fluttist aftur til Íslands, tókst henni að ná efstu sætum vinsældalista í nokkrum löndum um allan heim og komast í 7. sæti á breska vinsældalistanum með fyrstu smáskífu sinni, Real Good Time. Aaron Carter gaf síðar út lagið RGT á sinni fyrstu plötu, Aaron’s Party, sem leiddi til þess að Alda hlaut tvöfalda platínuplötu frá Norður-Ameríku.
Alda Björk býr nú í Flóahreppi ásamt eiginmanni sínum og saman reka þau verslunina Made In Ísland á Selfossi.
„Ég flutti aftur til Íslands árið 2020 og er komin á fullt með útgáfu af nýju efni,“ segir Alda Björk en hún samdi meðal annars lagið Frelsið mitt sem Stebbi Jak flutti í Söngvakeppninni í vetur og lenti í 2. sæti.
„Síðan eru þrjár plötur væntanlegar á næstu misserum, til að kveðja fortíðina og til að horfa til framtíðarinnar með glænýjum tónlistarstíl og hljóði. Og það verða spennandi tímar,“ segir Alda Björk að lokum.