Róbert sýnir undir stiganum

Róbert Karl Ingimundarson sýnir nú ljósmyndir sem hann hefur tekið á síðustu tveimur árum í gallerí Undir stiganum í Bæjarbókasafni Ölfuss.

Róbert er áhugamaður um ljósmyndun og hefur gott auga fyrir myndefni og birtu. Á sýningunni verða sérlega vel heppnaðar náttúrumyndir þar sem sólin og vatnið gegna veigamiklu hlutverki. Allar eru myndirnar stækkaðar upp og prentaðar á striga.

Þetta er í annað sinn sem Róbert heldur sýningu á ljósmyndum á bókasafninu en sýningin stendur yfir til maíloka og er opin á opnunartíma bókasafnsins.