Risa Euro-partý á Selfossi: Sviðið breytist í Gleðibankann

Emmelie de Forest.

„Okkur langaði að keyra á eitthvað öðruvísi, stórt og skemmtilegt,“ segir Hlynur Friðfinnsson, framkvæmdastjóri, um stærsta Eurovisionpartý sem haldið hefur verið á Íslandi. „Við verðum á útopnu á öllum hæðum á Miðbar/Sviðinu á laugardagkvöld, þegar lokakeppni Eurovision fer fram.

Það verður semsagt Eurovison hátíð í miðbæ Selfoss, þar sem engin önnur en danska söngkonan Emmelie de Forest verður heiðursgestur. Hún sigraði Eurovision árið 2013 með laginu Only Teardrops og mun hún að sjálfsögðu taka lagið á Sviðinu eftir að útsendingunni sjálfri lýkur.

Ætlum að gera þetta með stæl
„Við ætlum bara að gera þetta með stæl. Mér er til efs að nokkur íslenskur skemmtistaður hafi tjaldað jafn miklu til áður,“ segir Hlynur. Sviðið mun breytast í Gleðibankann þetta kvöld og Einar Bárðarson, Eurovisionáhugamaður, hefur verið ráðinn bankastjóri Gleðibankans þetta kvöld. Einar er öllum hnútum kunnugur þegar kemur að keppninni en gerðist svo frægur að fara með 3 stig af Parken í keppninni árið 2001.

Aðgöngumiðinn á Eurovision veisluna kostar 1.986 gleðibankakrónur, en það er árið sem Ísland tók fyrst þátt í Eurovision. Innifalið í miðanum er kokteillinn Douze points, djúsí Euroborgari, happdrættisvinningar og fleira.

„Við grillum í partýgesti milli 18-20 og drykkir verða á happy hour á meðan á keppninni stendur. Við sjáum fyrir okkur að vinahópar og vinnustaðir taki sig saman og þétti hópinn fyrir sumarið. Það verður hægt að bóka borð fyrir hópinn og koma og skreyta frá hádegi. Flottasta hópaborðið fær flöskuborð á miðnætti,“ segir Hlynur.

Bestu lögunum blastað fram á nótt
Sjálf keppnin verður á nokkrum risaskjám á Sviðinu, þar sem hörðustu Eurovision aðdáendurnir munu sitja en keppnin verður einnig sýnd á Miðbar, sem er á næstu hæð fyrir ofan þar sem „má tala” á meðan keppni stendur. Ef Miðbar fyllist þá verður hægt að koma sér fyrir á Risinu kokteil bar. Í framhaldi mun plötusnúðurinn ofurhressi DJ Gassi Kling blasta bestu Eurovision lögunum fram á nótt.

Fyrri grein„Þetta er bara ömurlegt“
Næsta greinBergrós komin inn á Heimsleikana annað árið í röð