„Rétturinn til letinnar“ í fyrsta sinn á íslensku

„Verum löt á öllum sviðum, fyrir utan ástir og drykkju, fyrir utan leti.“ Þessi tilvitnun í þýska rithöfundinn Lessing eru upphafsorð bókarinnar Rétturinn til letinnar.

Ritið er eitt þekktasta áróðursrita sósíalista 19. aldar að Kommúnistaávarpinu einu undanskildu. Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi gefur út bókina sem kemur nú í fyrsta sinn út á íslensku í vandaðri þýðingu Guðmundar J. Guðmundssonar sagnfræðings.

Í riti þessu deilir höfundurinn á langan vinnudag og almenna dýrkun á vinnunni. Hann rökstyður að með styttri vinnuviku megi auka framleiðni sem er aldrei nógsamlega brýnt fyrir hinum vinnuglöðu Íslendingum. En þetta 130 ára vakningarrit er einnig ádeila á sóun og græðgi iðnaðarsamfélagsins og á því fullt erindi til okkar. Gildir þá einu hvort horft er til vinnudeilna samtímans hér á Íslandi eða vaxandi umhverfisvitundar og kreppu kapítalismans um heim allan á síðustu árum.

Höfundurinn Paul Lafargue var franskur, læknir að mennt en starfaði lengstum við blaðamennsku og stjórnmál. Hann var tengdasonur Karls Marx, kvæntur Lauru dóttur hans. Þann 26. nóvember 1911 fyrirfóru þau hjónin sér í sameiningu, þá bæði komin um sjötugt. Að baki þeirri ákvörðun lágu hugsjónaástæður sem tengdust andúð þeirra á hefðbundnum trúarsetningum og trú þeirra á veraldlega lífsnautnastefnu.

Fyrri greinRagnar Brynjólfs: Heilsársmarkaður á Selfossi?
Næsta greinIngólfur hlutskarpastur í hugmyndasamkeppni