Á dögunum gaf Guðrún Arndís Tryggvadóttir myndlistarmaður Sveitarfélaginu Árborg málverkið Kafarann, sem nú hefur verið sett upp í Sundhöll Selfoss.
„Fyrir mér er sund og köfun farvegur fyrir hina stöðugu leit að svörum í djúpi sjálfsins. Verkið fjallar um þessa tilfinningu og hve allt er í raun líkt, lífverurnar, gróðurinn, vatn, eldur og jörð,“ segir Guðrún.
Málverkið er málað með olíu á hörstriga árið 2021 og hangir á veggnum í ganginum sem snýr að útilauginni.
Guðrún er daglegur gestur í lauginni og fannst því við hæfi að verkið fái að hanga þar til frambúðar enda sé hennar markmið að myndlist fái meira vægi og verði sjáanlegri í sveitarfélaginu Árborg.
Jafnframt hefur Guðrún sett upp Pop-up sýningu á átta vatnslitamyndum í norðurgangi Sundhallar Selfoss, en þær voru hluti af hugmyndavinnu hennar fyrir verkið.