Rakel Sif sýnir í Listagjánni

Rakel Sif Ragnarsdóttir frá Hvolsvelli opnaði í vikunni sína þriðju einkasýningu, í Listagjánni í Bókasafninu á Selfossi.

„Innblástur fyrir myndirnar kemur í rauninni úr öllum áttum, þó helst úr náttúrunni. Ég tek mikið af myndum á símann sem ég fer síðan yfir og skil stundum ekkert hvað ég var að spá. Myndin er kannski ekkert flott en litirnir eða jafnvel bara smá brot af myndinni var það sem ég var að reyna að fanga,“ segir Rakel en fuglaþema er í flestum myndum hennar í Listagjánni.

Rakel byrjaði að mála vatnslitamyndir í grunnskóla. „Ég hélt áfram að mála vatnslitamyndir í framhaldsskóla en móðir mín keypti síðan handa mér akrýlliti og hvatti mig til þess að prufa og þá var ekki aftur snúið,“ segir Rakel sem málar nú eingöngu með akrýl á striga.

Rakel segist alltaf haft gaman af allri list og sköpun. „Ég hef mikið fengið að njóta mín við gerð skreytinga á Bókasafni Árborgar þar sem ég vinn. Þar má nefna klippimyndir sem prýða veggi barnadeildar safnsins og bendi ég fólki endilega á að skoða þær líka þegar það kemur að skoða sýninguna,“ segir Rakel.

Að sögn Rakelar er hún að mestu sjálfmenntuð. „Ég tók eitt námskeið í sjónlist þegar ég var í fjölbraut og er það í rauninni eina verklega kennslan sem ég hef fengið, annars hef ég bara prufað mig áfram og fundið minn eigin stíl,“ segir Rakel en auk þess er hún með BA próf í listfræði frá Háskóla Íslands.

Sýningin stendur út september.

Fyrri greinSíðasta sprengingin í aðrennslisgöngum Búðarhálsvirkjunar
Næsta greinRagnarsmótið hefst í kvöld