Raðmorðingi varð dansari

Félagarnir í Hr. Eydís sendu frá sér nýtt föstudagslag fyrir helgina. Að þessu sinni var það lagið Maniac með Michael Sembello úr kvikmyndinni Flashdance.

Lagið úr kvikmyndinni sem enginn hafði trú á varð alveg feykilega vinsælt og fór rakleitt á toppinn á Billboard Hot 100, enda er það alveg stórgott. Já, þeir sem stóðu að Flashdance höfðu litla trú á því að kvikmyndin yrði vinsæl. En myndin varð engu að síður þriðja tekjuhæsta kvikmyndin árið 1983 og sagt er að lögin í kvikmyndinni hafi mikið haft með það að gera.

Lagið var í upphafi um raðmorðingja sem Michael Sembello söngvari lagsins hafði lesið um í blöðunum. Titilinn á laginu fékk hann svo úr hryllingsmynd sem einmitt hét Maniac. Einhvernveginn barst tónlistarstjóra Flashdance demo-upptaka af laginu og honum líkaði mjög vel við, fannst það hafa allt til að bera til að skipa stóran sess í myndinni. Atriði í myndinni var meir að segja skotið við demo-upptökuna. Lagið var þó tekið upp aftur og textinn aðlagaður að myndinni, fjallaði sem sagt ekki lengur um raðmorðingjann heldur um dansarann í Flashdance.

„Ég man vel eftir Maniac í myndinni Flashdance sem ég fór á í Háskólabíó með mömmu, þetta var eftirminnilegt lag sem mér fannst rosalega gott. Mömmu fannst það líka og ég þurfti lítið að suða svo mamma keypti handa mér Flashdance-plötuna,“ segir Örlygur Smári, söngvari Hr. Eydís. Hann brosir yfir minningunni og bætir við „bekkjarsystir mín í tólf ára bekk vann líka danskeppni þegar hún dansaði við lagið. Við bekkjarsystkini hennar vorum auðvitað ákaflega stolt af henni“.

Rás Hr. Eydís á Youtube

Hr. Eydís á Instagram

Hr. Eydís á Facebook

Hr. Eydís á TicTok

 

Fyrri greinHalla Hrund býður sig fram
Næsta greinFramkvæmdir að hefjast við slökkvistöð á Laugarvatni