Ráðskonuríki í Tryggvaskála í kvöld

Alþýðuóperan sýnir kl. 21 í kvöld hina mjög svo óvenjulegu óperusýningu Ráðskonuríki í Tryggvaskála á Selfossi.

Ráðskonuríki er sett upp af Alþýðuóperunni, sem er sjálfstætt íslenskt óperufélag. Aðalatriði sýningarinnar er tónlistin og er öll umgerð sýningarinnar smá í sniðum; í hverri sýningu tveir söngvarar, einn leikari og einn gítarleikari, sem er mjög óvenjulegt fyrir óperur.

Ráðskonuríki eða La Serva Padrona eftir Pergolesi í íslenskri þýðingu Egils Bjarnasonar er bráðfyndin ópera sem höfðar til allra, en söguþráðurinn er mikill farsi. Sungið er á íslensku og tekur sýningin um klukkutíma.

Sýningin var frumsýnd á Café Rósenberg við mikinn fögnuð. Margir sem mættu á sýninguna höfðu aldrei áður séð óperu, en sýningin er sérstaklega hugsuð út frá því að allir geti notið hennar, stutt, fyndin og í afslöppuðu umhverfi á vínveitingastað.

Einnig verður sýning fyrir aldraða í Grænumörkinni í dag en það er hluti af stefnu Alþýðuóperunnar að koma með óperuna til almennings og þá meðal annars inn á sjúkrahús og stofnanir.

Ísabella Leifsdóttir syngur hlutverk Serpinu, Steinþór Jasonarson fer með hlutverk Uberto og Saga Garðarsdóttir leikur Vespone. Jón Gunnar Biering Margeirsson spilar á gítar, en hann er einnig tónlistarstjóri sýningarinnar. Ingólfur Niels Árnason leikstýrði sýningunni.

Tónlistarsjóður og Menningarsjóður Suðurlands styrkja þessar sýningar á Selfossi.

Fyrri greinBlómstrandi dagar um helgina
Næsta greinNikkuleikur á sundlaugarbakkanum