Ben Waters er einn fremsti boogie-woogie píanisti heims, þekktur fyrir ótrúlega sviðsorku og glæstan feril. Waters verður á Risinu Vínbar í miðbæ Selfoss á föstudagskvöldið, þann 29. ágúst kl. 20 og er frítt inn á meðan húsrúm leyfir.
Waters spilar á yfir 250 tónleikum á ári um allan heim og er nú í hljómsveit Ronnie Wood, gítarleikara The Rolling Stones. Ferill Waters spannar samstarf með stærstu nöfnum rokk- og blústónlistarsögunnar; Charlie Watts, Chuck Berry, Jeff Beck, Jerry Lee Lewis, Ray Davies, Brian Johnson úr AC/DC og Ritchie Blackmore, svo aðeins nokkrir séu nefndir.
Ben Waters verður við píanóið á Risinu og mun færa áheyrendum eldfimt boogie-woogie, rokk og blús í anda meistaranna, kryddað með litríkum sögum af ótrúlegum ferli sínum.

