Pétur Reynisson sýnir ljósmyndir

Föstudaginn 12. febrúar kl. 17 opnar ljósmyndasýning Péturs Reynissonar í Bókasafninu í Hveragerði.

Pétur þekkja margir Hvergerðingar fyrir glæsilega verðlaunagarðinn sinn og aðra fallega garðvinnu, en aðrir fyrir fallegar ljósmyndir sem hann hefur m.a. sýnt á gamla Hótel Hveragerði.

Pétur er uppalinn í Hveragerði og hefur búið þar frá sjö ára aldri. Pétur var eitt ár við nám í ljósmyndun við Brooks Institute of Photography í Santa Barbara í Californiu. Hann lærði síðan skrúðgarðyrkju og hefur að mestu starfað við hana. Hann starfar nú sem garðyrkjumaður hjá Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði.

Pétur hefur unnið að ljósmyndun í frístundum og haldið nokkrar einkasýningar. Viðfangsefni sýningarinnar á bókasafninu er að mestu leyti landslag.

Sýningin verður opin um leið og safnið, mánudaga kl. 11-18:30, þriðjud.- föstud. kl. 13-18:30 og laugardaga kl. 11- 14 og stendur fram yfir páska.

Allir eru velkomnir á sýningaropnun. Boðið verður upp á skemmtilegt spjall og hressingu.

Fyrri greinSex sunnlenskir nýsveinar heiðraðir
Næsta greinNý danskir dagar í Árborg