Persónur Njálu til sýnis

Nú stendur yfir sýning á myndverkum Þórhildar Jónsdóttur í Bókasafninu í Hveragerði.

Myndirnar eru í eigu Bjarna Eiríks Sigurðssonar en þær eru unnar eftir lýsingum hans gegnum síma á persónum Njálu eins og hann taldi að þær hefðu getað litið út í lifanda lífi.

Þórhildur er fædd að Breiðabólstað í Fljótshlíð. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1968-1972 og hefur síðan starfað við grafíska hönnum og málun. Síðustu 25 árin hefur hún rekið eigin vinnustofu, Auglýsingastofu Þórhildar.

Þórhildur fæst m.a. við olíu-, vatnslita- og pastelmyndir, blek-, krítar- og tölvuteikningar, en myndirnar á sýningunni eru einmitt unnar með hjálp tölvutækni.

Fimmtudaginn 15. mars kl. 17:30 fjallar Bjarni Eiríkur Sigurðsson sögumaður um Hallgerði langbrók, sem var mikill örlagavaldur í Njálu. Um leið verður sýningin formlega opnuð.

Bjarni Eiríkur er þekktur fyrir Njáluerindi sín í Sögusetrinu á Hvolsvelli og víðar. Margir muna einnig eftir honum gegnum skólastarf, hestamennsku, ferðamennsku og vegna tengsla hans við Hveragerði, en Bjarni hefur búið bæði í Hveragerði og Ölfusi.

Sýningin er opin á sama tíma og safnið, virka daga kl. 13-19 og laugardaga kl. 11-14.