„Partýtónleikar með götugrill-ívafi“

Skítamórall flýgur áfram þessi dægrin. Ljósmynd/Mummi Lú

Hljómsveitin Skítamórall slær ekki slöku við þessa dagana. Í síðasta mánuði fögnuðu þeir starfsafmæli sínu með stórtónleikum í Hofi og Háskólabíói. Nú hafa strákarnir gefið út að þeir haldi uppteknum hætti um hvítasunnuna og verði á Sviðinu á Selfossi með þriggja kvölda tónleikaseríu, eins og þeir hafa gert síðustu ár við miklar vinsældir.

Vilja halda í hefðina
„Við viljum halda í þessa skemmtilegu hefð á Sviðinu um hvítasunnuna. Selfoss er heimabærinn okkar og okkar sterkasta vígi. Ekki bara það, heldur er fólk að byrja að þyrpast út á land á þessum tíma, og sumarbústaðirnir og tjaldstæðin að fyllast af lífsglöðu fólki sem er að safnast saman til að hafa gaman,“ segir Arngrímur „Addi“ Fannar Haraldsson, gítarleikari. Það hefur alltaf selst upp á öll hvítasunnukvöldin þeirra og segir hann að þessir tónleikar eigi sérstakan stað í hjarta þeirra.

Hálfgert götugrill-gigg
„Á þessa tónleika koma gömul skólasystkini okkar, gamlir vinnufélagar, nágrannar og jafnvel foreldrar vina okkar, þannig að þetta verða partýtónleikar með götugrill-ívafi jafnvel,“ bætir Addi við. „Þannig þekkjum við nánast hvert einasta andlit í salnum og vitum jafnvel hvaða lög þau vilja heyra. En við erum líka agalega glaðir og þakklátir þegar við sjáum ný andlit.“

Líflegt sumar framundan
Afmælistónleikar sveitarinnar tókust vonum framar. Hljómsveitin tók þar á móti skemmtilegum gestum og rifjaði upp minnisverða kafla úr sögu sveitarinnar. Þá kom nýtt lag út í vor, sem er endurgerð af fyrsta stóra lagi sveitarinnar, „Sælan“ og von er á fleira skemmtilegu efni með strákunum í sumar. Dagskrá sumarsins og verslunarmannahelgarinnar er einnig að skýrast og er verið að leggja lokahönd á hana.

Fyrri greinFluttu á Selfoss frá Bandaríkjunum til að opna indverskan veitingastað
Næsta grein„Verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla“