Páls Ísólfssonar minnst á Stokkseyri

Annað menningarkvöldið í menningarmánuðinum október í Árborg verður haldið í kvöld, þriðjudaginn 12. október, á afmælisdegi Páls Ísólfssonar, tónskálds frá Stokkseyri.

Komið verður saman á orgelverkstæði Björgvins Tómassonar í Hólmarastarhúsinu á Stokkseyri. Kl. 20:00.

Þetta er tíunda árið sem Páls Ísólfssonar er minnst á Stokkseyri og 5 ára afmæli orgelsmiðjunnar en hún var opnuð formlega þennan dag árið 2005. Það má með sanni segja að þegar afmælis Páls var minnst í fyrsta skipti árið 2000 að ákveðinn hornsteinn hafi verið lagður að menningarstarfi í Hólmarastarhúsinu en menningarstarf hefur verið blómlegt í húsinu síðan.

Tónlistaratriði verða frá Tónlistarskóla Árnesinga í umsjón Margrétar Stefánsdóttur Esterar Ólafsdóttur og Hlínar Pétursdóttur og Barna og unglingakór Getsemanekirkjunnar í Berlín heiðrar gesti með söng sínum.

Í tilefni dagsins mun verða kveikt á líkani af Knarrarósvita á Bryggju-Sviðinu á Stokkseyrarbryggju fyrir framan orgelsmiðjuna. Skipaðir vitaverðir þeir Jóhann Hallur Jónsson og Guðmundur Gestur Þórisson sjá um að tendra vitann.

Frítt er inn á kvöldið og mun starfsmannafélag Hólmarastar og Hrútavinafélagið Örvar bjóða upp á þjóðlegar veitingar.

Menningarkvöldin í október eru á vegum Menningarnefndar Árborgar.

Umsjón kvöldsins 12. október á Stokkseyri er í höndum Björns Inga Bjarnasonar.

Allir eru hjartanlega velkomnir.