„Palli vaknar í rúminu sínu…“

Út er komin skáldsagan Leiðin út í heim eftir Hermann Stefánsson. Þetta er fimmta skáldsaga Hermanns sem hlotið hefur verðskuldaða athygli fyrir nýbreytni og frumlega hugsun í skáldskap.

Palli vaknar í rúminu sínu. Hann er einn í herberginu og þar er undarlega kyrrt og hljótt. Hann sest upp. Fötin hans liggja snyrtilega samanbrotin á stólkoll við bláan rúmgaflinn. Undan rúminu skaga uppreimaðir skór. Maðurinn veit að hann dreymdi eitthvað en man ekki hvað það var.

Palli er einn í heiminum en þó ekki því hér eru að lágmarki tveir. Heimurinn innra með manneskjunni og heimurinn fyrir utan hana.
Falli heimurinn hið ytra snurðulaust saman við innri heim er maðurinn einn í einum heimi. Það er mikil og dapurleg einsemd. Sé munur á heimunum en ekki milligengt er maðurinn í öðrum heimi.

Höfundur bregður á leik með fræga barnabók Jens Sigsgaard um Palla sem var einn í heiminum en veltir um leið upp tilvistarlegum spurningum.

Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi gefur út.

Fyrri greinÞór mætir Hetti á útivelli
Næsta greinKirkjufjöru lokað til bráðabirgða