Páll Jökull sýnir landslagsmyndir

Í dag milli kl. 14 og 17 verður opnun á ljósmyndasýningu Páls Jökuls Péturssonar í veitingahúsinu Eldhúsið að Tryggvagötu 40 á Selfossi.

Páll hefur á undanförnum árum sett upp fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum annara ljósmyndara meðal annars með ljósmyndaklúbbnum BLIK á Suðurlandi og Fókusfélagi í Reykjavík. Myndir Páls á þessari sýningu eru allar teknar á Suðurlandi.

Páll Jökull er Sunnlendingur í húð og hár, frá Litlu-Heiði í Mýrdal og nú búsettur á Selfossi. Páll Jökull hefur stundað ljósmyndun um árabil, og er helsta viðfangsefni hans landslag í sínum fjölbreyttu myndum, ljós og skuggar, allt frá fjöru til fjalls.

Sýningin verður opin til loka janúar 2014 og eru myndirnar til sölu. Gestum er boðið upp á haustdrykk og einnig að gæða sér á kaffi og vöfflum að hætti Karólínu í Eldhúsinu á aðeins kr. 500.

Sunnlendingar og aðrir áhugasamir eru boðnir hjartanlega velkomnir á opnun sýningarinnar.

Fyrri greinJafntefli í hörkuleik gegn Gróttu
Næsta greinGlaðasti hundurinn í Hvíta í kvöld