„Ótrúlega spennt fyrir úrslitunum“

Með hækkandi sól er í veðurkortunum. Ljósmynd/Aðsend

Systurnar Sigga, Beta og Elín hafa hafa verið duglegar að svara kalli fólks um að koma og syngja Með hækkandi sól og hita þar með upp fyrir úrslitakvöld Söngvakeppni sjónvarpsins á laugardagskvöld.

„Þetta byrjaði á því að krakkarnir í Hjallastefnunni, sem ég kenni tónlist, komu mér á óvart með því að syngja lagið fyrir mig. Ég ákvað að fá stelpurnar í heimsókn til að hlusta á fallega flutninginn þeirra og syngja svo lagið með þeim,” segir Beta. „Þetta spurðist út og Barnaskór Ísaksskóla bauð okkur í heimsókn.“

Eftir að myndband frá Ísaksskólaheimsókninni fór í loftið hafa systurnar fengið boð um að mæta bæði í skóla og á vinnustaði og þegið þau með glöðu geði. Núna eru þær komnar á lokaæfingu í Söngvakeppnishöllinni í Gufunesi þar sem þær einbeita sér að því að syngja til sigurs í dómararennslinu í kvöld og í keppninni sjálfri á morgun.

Höfundur lagsins, tónlistarkonan Lay Low, er fulltrúi Sunnlendinga á úrslitakvöldinu, en hún er búsett í Ölfusinu.

„Ég er ótrúlega spennt fyrir úrslitunum. Sigga, Beta og Elín eru svo stórkostlegar samstarfskonur. Ég veit að þær eiga eftir að leggja allt í flutninginn og ég mun sitja í salnum að springa úr stolti,“ sagði Lay Low í stuttu spjalli við sunnlenska.is

Hér fyrir neðan er myndasaga af helstu ævintýrum systranna í vikunni.

Systurnar fengu magnaðar viðtökur í morgun hjá krökkunum í Lækjarskóla í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend
Smá sprell með Húllumhæ-liðinu frá Krakkafréttum. Ljósmynd/Aðsend
Í stúdíó 12 með pabba. Ljósmynd/Aðsend
Og auðvitað tóku þær lagið með mömmu þegar hún mætti hjá Jóni Ólafssyni í Af fingrum fram. Ljósmynd/Aðsend
Sigurður Svavarsson og Geirarður Long í Húsasmiðjunni í Grafarholti eru miklir aðdáandi og spá þeim sigri á morgun. Ljósmynd/Aðsend
Starfsmenn íslenskrar erfðargreiningar voru þakklátir fyrir söngin og senda systrunum baráttukveðjur. Ljósmynd/Aðsend
Friðarstund í Hörpu. Ljósmynd/Aðsend
Dýrmæt söngstund með Barnaskór Ísaksskóla. Ljósmynd/Aðsend
Íslandsdætur eru peppaðar fyrir því að fara til Ítalíu í maí. Ljósmynd/Aðsend
Kosninganúmers-pósa. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinMeistararnir ekki í neinum vandræðum
Næsta greinHvernig er best að byggja upp nýja Hamarshöll?