„Óskir íslenskra barna“ í bókasafninu

Um næstu helgi opnar á Bókasafninu á Selfossi sýningin „Óskir íslenskra barna“, sem er gjöf ljósmyndarans Ástu Kristjánsdóttur og Barnaheilla – Save the Children á Íslandi í tilefni af 25 ára afmæli samtakanna og Barnasáttmálans.

Ljósmyndirnar byggja á reynslusögum úr samtíma íslenskra barna sem hafa upplifað ofbeldi, vanrækslu, einelti eða fátækt. Myndirnar sýna óskir barnanna um betra líf.

Fræðsla er mikilvægur þáttur í sýningunni þar sem börn eru frædd um mannréttindi sín og hvert hægt er að leita ef þau telja að brotið sé á þeim sjálfum eða einhverjum í kringum þau. Sýningin gegnir einnig því hlutverki að skapa von þar sem börn geta á einfaldan hátt skrifað óskir sínar á miða. Texti úr barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fylgir með til að minna á réttindi barna. Á sýningunni er einnig óskatré þar sem börn geta skrifað óskir sínar um betri heim á miða og fest á tréð eða á vegg.

Með sýningunni fylgja afar vandaðar kennsluleiðbeiningar sem verða sendar áfram í grunnskóla á svæðinu til að aðstoða kennara við að fræða börn sem sækja sýninguna um innihald hennar og boðskap.

UPPFÆRT: Opnun sýningarinnar Óskir íslenskra barna, sem fyrirhuguð var á laugardag, frestast af óviðráðanlegum orsökum fram á miðvikudag.

Fyrri greinÞór mætir Keflavík í bikarnum
Næsta greinUm 170 keppendur tóku þátt