Óskar Snorri hreppti Hljóðkútinn

Óskar Snorri og félagar fögnuðu sigrinum vel. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Óskar Snorri Óskarsson frá Hruna sigraði í Blítt og létt, söngkeppni nemendafélagsins Mímis í Menntaskólanum að Laugarvatni. Keppnin var haldin fyrir troðfullu húsi í íþróttahúsinu á Laugarvatni í kvöld.

Óskar naut fulltingis hljómsveitarinnar Kóma á sviðinu og sigruðu strákarnir með mögnuðum flutningi á gamla Hljómalaginu Lover man. Dómnefndina skipuðu Pálmi Gunnarsson, Elín Ey og Gugusar og sagði Pálmi að dómnefndin hafi verið á einu máli um sigurvegara kvöldsins. Þrátt fyrir það var keppnin hörð en tólf atriði tóku þátt.

Í 2. sæti nú varð Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir frá Lambhaga á Rangárvöllum sem flutti Beyoncé-lagið Runnin’ (Lose It All) og í 3. sæti varð Hákon Kári Einarsson frá Hvolsvelli með John Mayer lagið Slow Dancing in a Burning Room. Teitur Snær Vignisson frá Hemlu fékk verðlaun fyrir skemmtilegasta atriðið en hann og hljómsveitin Diskóbandið aðeins meira diskó fóru snilldarlega með Bee Gees lagið More Than A Woman.

Sannkölluð hæfileikasýning
Það er óhætt að segja að keppnin í kvöld hafi verið vel heppnuð, tólf frábær atriði, umgjörðin glæsileg og hæfileikafólk í hverju horni. Þema keppninnar var Stranger Things og voru skreytingar í salnum í anda þáttanna, auk þess sem kynnar kvöldsins, þau Oddný Benónýsdóttir og Birkir Hreimur Birkisson voru klædd upp af því tilefni.

Sigurvegarinn frá því í fyrra, Freyja Benónýsdóttir, opnaði kvöldið með sínu lagi og það kom svo í hennar hlut að afhenda Óskari farandverðlaunagripinn Hljóðkútinn. Í dómarahléinu var boðið upp á frábær dansatriði frá nemendum skólans, þar sem stelpurnar slógu strákunum við og Erla Þorsteinsdóttir, húsfreyja, sýndi meðal annars snilldar tilþrif.

Fyrri greinSunnlensku liðin sigruðu
Næsta greinÁralangt samstarf heldur áfram