Óskað eftir rómantískum athugasemdum

Bókasafn Árborgar á Selfossi. Ljósmynd/Aðsend

Bókasafn Árborgar verður með rómantíska dagskrá í ágúst undir heitinu „Einu sinni á ágústkvöldi“.

Fyrsti viðburðurinn verður 9. ágúst, sem er Múmíndagurinn, og þá verður viðfangsefnið „Ást Múmínálfanna“. Þá verður boðið upp á upplestur, myndasýningu og ratleik fyrir börnin.

Svo heldur dagskráin áfram meðal annars með ljóðskáldunum Völu Hauksdóttur og Arndísi H. Tyrfingsdóttur, höfundakvöldi um Snjólaugu Bragadóttur og Birgittu H. Halldórsdóttur og Kristín Linda Jónsdóttir, sérfræðingur í Jane Austen bókum og ferðalögum, kemur í heimsókn á safnið. Að lokum verður dagskrá fyrir börnin, „Ástarsaga úr fjöllunum“, og hver veit nema það takist að laða tröll að safninu.

Skreytingar á safninu eru alltaf hluti af umfangsmiklum viðburðum og nú óskar safnið eftir því að áhugasamir hjálpi til við þær með því að senda stuttar athugasemdir um ástina; fallegar, fyndnar, kannski einstaka pínu-illkvitnar en aðallega ofur rómantískar á netfangið afgreidsla@arborg.is.

Fyrri greinVarað við grjóthruni sunnanlands
Næsta greinFalleg fjölskyldu- og bæjarhátíð