Örn Árna, Matti Matt og Unnur Birna á Hveragerðisblótinu

Laugardaginn 10. febrúar næstkomandi verður Hveragerðisblótið haldið í íþróttahúsi Hvergerðinga. Það er Íþróttafélagið Hamar sem stendur að blótinu.

Húsið opnar klukkan 19:00, borðhald hefst klukkan 20:00 og verður maturinn frá Kjötbúrinu, bæði súr og ferskur ásamt læri og meðlæti fyrir þá sem það þiggja.

Hinn eini sanni og óviðjafnanlegi Örn Árnason mun stýra veislunni af sinni alkunnu snilld eins og honum einum er lagið. Aukinheldur verða fastir liðir eins og venjulega: minni karla og minni kvenna, annáll ársins, ræðumaður kvöldsins, fjöldasöngur, gömlu dansarnir, harmonikkuleikur, happdrætti og margt margt fleira.

Dansleikurinn verður síðan í öruggum höndum látúnsbarkans Matta Matt og Unnar Birnu ásamt danssveit Hveragerðisprestakalls.

Forsala miða hefst í dag klukkan 17:00 hjá Villunum í Shell-skálanum og kostar miðinn þar 11.500 krónur. Forsala á tix.is hefst á morgun, 25. janúar kl. 17 og þar kostar miðinn 11.900 krónur.

Eftirvæntingin er mikil og reikna má með að kofinn fyllist fljótlega og því ætti fólk ekki að bíða of lengi með miðakaup ef það vill tryggja sér sæti.

Hveragerðisblótið á Facebook

Fyrri grein155 HSK met sett á síðasta ári
Næsta greinGul viðvörun árla fimmtudags