„Orðin miklu stærri hátíð en ég sá fyrir“

Næstkomandi laugardag fer fram kvikmyndahátíðin BRIM á Eyrarbakka. Markmikið hátíðarinnar er að fræða og vekja athygli á einu stærsta og mest aðkallandi umhverfisvandamáli samtímans, plasti.

Kvikmyndirnar á hátíðinni eiga það allar sameiginlegt að fjalla um plastmengun og áhrif plasts á fólk og náttúruna.

Hugmynd sem lét hann ekki í friði
„Þessi hugmynd kom til mín einn morguninn og ég losnaði ekkert almennilega við hana. Þannig að ég fór að velta þessu fyrir mér og að spá í hvað ef. Þannig fór boltinn af stað og það var ekki til baka farið,“ segir Guðmundur Ármann Pétursson, sem stendur að hátíðinni, í samtali við sunnlenska.is.

„Æskuheimilið mitt er á Eyrarbakka og mig langar alltaf að reyna að leggja gott til þess samfélags með beinum og óbeinum hætti. Ég er fluttur aftur heim á Eyrarbakka með fjölskyldunni, þannig að um annan stað gat ekki verið að ræða,“ segir Guðmundur aðspurður afhverju Eyrarbakki hafi orðið fyrir valinu til halda hátíðina.

Guðmundur segir að hann hafi aldrei áður haldið kvikmyndahátíð né sótt kvikmyndahátíð. „Þetta er allt nýtt fyrir mér, það að vita ekki hvað á að gera eða má gera og að vera engum bundinn er mikið frelsi. Ég held að það sé einn lykillinn að því að BRIM er öðruvísi.“

Vandaðar og áhrifaríkar kvikmyndir
„Það er þrjár frábærar og mjög ólíkar kvikmyndir á BRIM sem allar fjalla um plast og áhrif þess. En þema hátíðarinnar er plast. Þetta eru erlendar myndir sem þykja með þeim bestu á þessu sviði. Fjórða myndin á BRIM er stuttmynd sem nemendur í 9. bekk barnaskólans á Eyrarbakka hafa gert og verður hún sýnd í Sjóminjasafninu,“ segir Guðmundur en hægt er að sjá sýnishorn úr kvikmyndunum á heimasíðu hátíðarinnar.

„Það er eitt af því sem er öðruvísi við BRIM, kvikmyndasýningar eru í heimahúsi, Húsinu byggðasafni, í fangelsinu á Litla Hrauni og í gömlu pakkhúsi. Einnig eru í boði fyrirlestrar þar sem sex einstaklingar fjalla um plast í íslenskum raunveruleika og eins og með kvikmyndirnar að þá er fjallað um plastið frá ólíkum sjónarhorni,“ segir Guðmundur.

Litla Hraun opnar dyr sínar
Guðmundur segir að allt samfélagið á Eyrarbakka hafi tekið vel í hugmyndina hans. „Það sem gleður mig einna mest með BRIM er hversu allir eru jákvæðir tilbúnir að koma að og taka þátt. Níundi bekkur barnaskólans hefur búið til kvikmynd sem verður sýnd á hátíðinni og þau sýna hana og taka þátt. Litla Hraun opnar sínar dyr og býður fólki í bíó. Byggðasafnið tekur þátt, íbúar leggja sitt til. Rauða Húsið opnar sínar dyr og þar verða fyrirlestrar, þetta gleður mig mikið.“

Strandhreinsun sama dag
„Sveitarfélagið átti frumkvæði að því að staðið verður að hreinsun á ströndinni við Eyrarbakka samhliða BRIM, þannig að hægt verður að hefja daginn á því að fá ferskt loft í lungun og leita að plasti í fjörunni frá kl. 11 um morguninn. Íbúar opna dyr sínar og bjóða heim. Það að fá tækifæri til að opna augu fólks fyrir þeirri umhverfisógn sem plast er, er einnig mikilvægt og skiptir máli. Allt þetta skiptir máli,“ segir Guðmundur sem er virkilega ánægður með þessar jákvæðu undirtektir sem hátíðin fær.

„BRIM er orðið miklu stærra en ég sá fyrir, það verða í boði fimmtán viðburðir á Eyrarbakka næsta laugardag, vítt og breitt um þorpið og það er frítt inn á þá alla. Þetta hefur tekið meiri tíma en ég átti von á, en þeim tíma hefur verið val varið og ég sé ekki eftir mínútu,“ segir Guðmundur að lokum.

Ókeypis er á alla viðburði og á allar sýningar hátíðarinnar.

Heimasíða BRIM kvikmyndahátíðarinnar

Fyrri greinÖlfusárbrú lokuð í nótt
Næsta greinDuglegir tombólukrakkar styrktu Rauða krossinn