Opnunarhelgi Sumartónleika í dag

Sumartónleikar í Skálholtskirkju 2011 hefjast í dag, laugardag kl. 14:00, með erindi Halldórs Haukssonar undir yfirskriftinni „Með sálina í eyrunum”.

Kl. 15:00 hefjast tónleikar kammerkórsins Schola Cantorum og félögum úr Alþjóðlegu barokksveitinni í Haag undir stjórn Harðar Áskelssonar. Kórinn mun frumflytja Sónhendu LXXVII fyrir blandaðan kór við texta Michelangelos Buonaroti. Í þýðingu Þorsteins Gylfasonar. Þá mun kórinn og barokksveitin flytja mótetturnar fyrir tvo kóra Der Geist hilft unsrer Schwachheit auf BWV 226 og Singet dem Herrn ein neues Lied BWV 225 og kantötuna Ich steh mit einem Fuss im Grabe BWV 156 fyrir þrjá einsöngvara, óbó og strengi. Einsöngvarar í kantötunni eru Elfa Margrét Ingvadóttir, Guðrún Edda Gunnarsdóttir og Benedikt Ingólfsson. Einleikari á óbó er Diego Nadra og leiðari sveitarinnar er Tuomo Suni.

Kl. 17:00 heldur hinn virti semballeikari Jacques Ogg tónleika sem spanna 100 ára gullaldartímabil sembalsins, frá u.þ.b. 1650 til 1750. Jacques mun leika verk eftir Froberger, Frescobaldi, Weckmann, Muffat og Forqueray.

Minningarsjóður Helgu Ingólfsdóttur er sérstakur styrktaraðili þessarar tónleikahelgar.

Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum en gestir hvattir til að styrkja Sumartónleika í Skálholti með frjálsum framlögum sem veitt er móttaka í anddyri kirkjunnar.

Fyrri greinDagur bætti sig
Næsta greinFuglar og sardínur á Sólheimum