Opið hús í félagsmiðstöðvum í dag

Í dag standa Samtök félagsmiðstöðva á Íslandi, SAMFÉS, fyrir félagsmiðstöðvadeginum. Félagsmiðstöðvar unglinga víða um land verða opnar fyrir gesti og gangandi í dag.

Markmið félagsmiðstöðvadagsins er að gefa áhugasömum færi á að heimsækja félagsmiðstöðina í sínu nágrenni, kynnast því sem þar fer fram, unglingunum og þeim viðfangsefnum sem þeir fást við með stuðningi starfsfólks félagsmiðstöðvanna.

Allir eru velkomnir, sérstaklega foreldrar og „gamlir“ unglingar sem vilja rifja upp kynnin við gömlu félagsmiðstöðina sína. Unglingarnir bera hitann og þungann af undirbúningi dagsins og reynt er að sýna þverskurð af því gróskumikla og fjölbreytta starfi sem fer fram á hverjum stað.

Dagskrá félagsmiðstöðvadagsins verður því breytileg á milli félagsmiðstöðva en á það sameiginlegt að þar fær unglingamenningin að njóta sín. Víða verður boðið upp á kaffi, kakó, vöfflur og annað meðlæti en sums staðar er veitingasala fjáröflun unglinganna vegna ferðalaga eða annarra verkefna.

Opnunartími á félagsmiðstöðvadaginn er misjafn eftir félagsmiðstöðvum og gestum bent á að líta við á heimasíðu sinnar félagsmiðstöðvar, sem margar hverjar eru einnig á Facebook.

Fyrri greinSælkerastund á Hendur í Höfn
Næsta greinFimmtán Íslandsmeistaratitlar til glímuliðs HSK