Opið hús á Gullkistunni

Gullkistan, dvalarstaður fyrir skapandi fólk, verður með opið hús í dag kl. 14 – 17 í Eyvindartungu, rétt sunnan við Laugarvatn.

Indverski myndlistarmaðurinn Baniprosonno dvaldi á Gullkistunni í október. Hann hefur nú gefið Gullkistunni mjög rausnarlega gjöf teikninga og málverka og í dag verður opnað fyrir sölu á þeim. Verkin eru eins og önnur verk hins síunga og skapandi listamannsins, full af lífi og fjöri.

Það er einlægur vilji Baniprosonno að leggja sitt af mörkum til Gullkistunnar sem hann telur einstakan stað fyrir skapandi vinnu.

Baniprosonno hefur í heimsóknum sínum til Íslands haldið námskeið fyrir börn. Verður ágóðinn af sölu myndanna notaður í sjóð til að halda margvísleg myndlistarnámskeið fyrir börn í samstarfi við listamenn sem dvelja á Gullkistunni í framtíðinni.

Allir eru velkomnir að nota tækifærið á laugardaginn og kynna sér starfsemi Gullkistunnar og einstakrar myndlistar Baniprosonno. Í dag verður einnig kertafleyting og önnur aðventudagskrá á Laugarvatni.

Fyrri greinFjórði sigur Þórs í vetur
Næsta greinSólheimakórinn syngur og spilar