Óperusöngur á bókamarkaðnum

Bókamarkaður Bókabæjanna austanfjalls í Hveragerði verður opinn helgina 10.-12. júlí líkt og allar helgar í sumar.

Um þessa helgi verður áhersla lögð á dramatískar bókmenntir og í tilefni af því ætlar óperusöngvarinn Ágúst Ólafsson ásamt Evu Þyri Hilmarsdóttur, píanóeikara að mæta kl. 14:00, laugardaginn 11. júlí og taka nokkur falleg og sígild verk.

Aðspurður hvaða lög viðstaddir mættu búast við að heyra segir Ágúst að á lagalistanum verði nokkur sígild verk eins og Maistjörnu Jóns Ásgeirs úr Heimsljósi Halldórs Laxness og aría Don Giovanni eftir Mozart. „Svo er mjög líklegt að við förum með verk eins og mónolog úr Ulysses. Það er svolítið öðruvísi verk en mjög skemmtilegt.“

Einnig verður bókin Jómfrú Ragnheiður eftir Guðmund Kamban á sérstöku tilboði alla helgina, en hún var endurútgefin í maí síðastliðnum

Bókamarkaðurinn er haldinn í húsi leikfélags Hveragerðis og er að Austurmörk 23 en það er við hliðina á svæðinu þar sem gamla góða Eden stóð. Markaðurinn er opinn frá kl. 12-18 föstudag til sunnudags.

Ókeypis er á tónleikana og allir velkomnir!

Fyrri greinFyrsta skóflustungan að nýju verknámshúsi
Næsta greinFagna því að Hvammsvirkjun sé sett í nýtingarflokk