Helga Dögg Sigurðardóttir á Selfossi svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég er eiginlega bæði núorðið því ég er agalegur skröggur þegar kemur að því hvað jólin eru farin að teygja sig langt fram á haustið hjá mörgum. Mér finnst jólaljósin til dæmis fara of snemma upp og jólasveinar dúkka upp hér og þar löngu áður en þeir koma til byggða. Læt það fara í taugarnar á mér, kannski eitt einkennið á því að vera miðaldra að láta hluti fara í taugarnar á sér.
Ég vil byrja hægt að undirbúa jólin, og ekki fyrr en við fyrsta sunnudag í aðventu. Kveikja einni jólaseríu, setja aðventuljós í gluggann og kveikja á eins og einu kerti við borðstofuborðið. Svo bætist í stemminguna með jólatónlist, bakstri, og smá skrauti hér og þar. Skreyti jólatréð aldrei fyrr en á Þorláksmessu en þá er ég líka orðinn algjör jólaálfur sem nýtur jólanna og alls sem þeim fylgir.
Uppáhalds jólasveinn? Kertasníkir, hann er svo hægur og rólegur með kertið sitt og ekki með hamaganginn og stríðnina sem fylgir hinum jólasveinunum. Komst á þessa skoðun þegar ég var lítil og var hálf hrædd við þessa ókunnugu ólátabelgi.
Uppáhalds jólalag? Þau eru eiginlega mörg en ef ég verð að velja eitt: Es ist ein Ros entsprungen (Það aldin út er sprungið) í flutningi The King‘s Singers. Ég er einmitt nýbúin að fara á tónleika með þessari dásamlegu söngsveit þar sem þeir komu fram á aðventutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg. Það var unun á að hlýða.
Uppáhalds jólamynd? Serendipidy með John Cusack og Kate Beckinsale er mín uppáhalds jólabíómynd. Hún er mjög jólaleg og ótrúlega rómantísk. Ég hef lengi haldið upp á John Cusack, tók The Sure Thing óteljandi oft á leigu í Björkinni á Hvolsvelli þegar ég var unglingur og horfði á hana hjá ömmu og afa en þar var til vídeótæki við sjónvarpið.
Uppáhalds jólaminning? Verð að nefna tvær: Þegar það var óveður á aðfangadag, rafmagnið fór og pabbi þurfti að fara undir fjöllin með Gunnari frænda að laga rafmagnslínu en kom aftur seinna um kvöldið og náði að halda jólin með okkur þrátt fyrir allt. Og hin er að fá að syngja jólin inn í Dómkirkjunni í Reykjavík 2008. Ég bjó í Noregi á þessum tíma en kom heim í jólafrí og fékk að vera með kórnum mínum að syngja inn jólin klukkan sex í útvarpinu. Yndislega falleg stemning og kærleikur í troðfullri Dómkirkjunni.
Uppáhalds jólaskraut? Uppáhalds jólaskrautið er ekki til lengur en það var risastór sex arma stjarna með glóperum sem pabbi smíðaði. Hún var um 1,7 metrar í þvermál, sem hékk á milli húsanna í sveitinni öll mín bernskujól. Hún hékk milli strompsins á húsinu í Ey 1 og strompsins í Ey 2 og var svo stór að hún sást vel frá þjóðveginum og lýsti upp sveitina.
Minnistæðasta jólagjöfin? Man mest eftir öllum bókunum sem ég fékk á jólunum, lá oft og las langt fram á nætur í jólafríinu. En ein önnur gjöf stendur þó upp úr og það var vatnsfylltur lítill tankur með kúreka og hesti og gekk leikurinn út á að ýta á takka til að reyna að koma kúrekanum á bak. Þetta gat ég dundað mér við í tíma og ótíma (þegar ég var ekki að lesa) og hafði ógurlega gaman af. Tek það fram að þetta var fyrir tíma vídeóleikja og síbylju sjónvarpsefnis alla daga fyrir börn.
Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Að syngja í Dómkirkjunni, á aðventukvöldi, tónleikum og í aðventumessum. Líka að fara á Hellu eða Hvolsvöll og borða skötu með mömmu, pabba, Halldóru föðursystur minni og Birni sambýlismanni hennar. Stundum eru fleiri með, maðurinn minn, synirnir eða einhver annar fjölskyldumeðlimur.
Hvað er í jólamatinn? Það er margrétta veisla að hætti Gaua míns, allt það sem hann ólst upp við á aðfangadagskvöld. Ég er ekki mikil hefða-kona og ekki mikill kokkur, svo að mér er sjálfri nokk sama hvað ég borða. Jólin fyrir mér er að vera með fólkinu mínu. Er mjög þakklát fyrir að hann skuli nenna að standa í eldhúsinu allan daginn til að bera fram dýrindis máltíð um kvöldið.
Ef þú ættir eina jólaósk? Úff. Ef maður gæti verið alvaldur þá er ég hrædd um að óskirnar væru margar, ekki bara ein. Að enda þrælahald og mansal sem hefur aldrei verið meira í heiminum, stöðva stríðsátök í yfir 50 löndum heims og svo framvegis. Ef það væri hægt að troða öllum óskunum í eina þá myndi ég vilja að heimurinn yrði betri eftir mína kynslóð en fyrir hana.