
Fjóla St. Kristinsdóttir, sveitarstjóri í Grímsnes- og Grafningshreppi og eigandi Pylsuvagnsins á Selfossi, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvernig var árið 2025 hjá þér? Árið 2025 var virkilega gott og einkenndist af tækifærum. Við tókum við nýju fyrirtæki í upphafi árs og ég byrjaði svo í nýrri vinnu í febrúar. Árið gaf mér alls konar tækifæri til að læra nýja hluti og kynnast nýju fólki, sem er eitt af því sem ég elska mest. Í maí útskrifaðist ég svo sem viðurkenndur stjórnarmaður, ekki seinna vænna. Sumarið gaf mér svo óvænt merfolald, sem þýðir að ég er hætt við að hætta í hestum.

Hvað stóð upp úr á árinu? Árið einkenndist einnig af stórafmælum í fjölskyldunni: Pabbi varð 80 ára, Ingimundur bróðir 60 ára og Siggi, litli bróðir, varð 50 ára og gifti sig óvænt.
Elín „Stella Löve junior“ fékk Maríu laxinn! Snorri og Elín fóru svo í frækna ferð til Noregs þar sem Snorri veiddi stærsta lax, sem við vitum um – 125 cm og 46,7 pund. Þýsk vinkona mín kom í heimsókn til Íslands með fjölskyldu sinni, en við kynntumst þegar við vorum skiptinemar í Bandaríkjunum á síðustu öld. Auk þess sem ég fékk allskonar óvænt tækifæri eins og að taka þátt í pallboðsumræðum, vera ráðstefnustjóri ofl.
Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? Spotify-listinn fór alveg í rugl þetta árið (true story), þar sem ég kom út sem 71 árs – sem var algjör skellur og alls ekki lýsandi. Ástæðan er klárlega sú að við spiluðum Smell/Hitster við öll tækifæri á þessu ári. Lagið sem ég hlustaði hins vegar mest á var Man I Need með nýjasta uppáhalds tónlistarmanninum mínum, Oliviu Dean.

Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Á gamlársdag er ómissandi að gefa útiganginum svo hrossin verði róleg í flugeldafárinu. Á gamlárskvöld, horfa á Áramótaskaupið, ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég myndi missa af mikilvægustu þjóðfélagsrýni ársins, punktur!

Hvað ætlarðu að gera um áramótin? Borða góðan mat og njóta kvöldsins með fjölskyldu og vinum.
Hvað er í matinn á gamlárskvöld? Eftir að ég bjó í Bandaríkjunum og fékk þar kalkún á áramótunum, fórum við mamma í það verkefni að búa til okkar eigin áramótakalkúnahefð. Ég skipti svo yfir í kalkúnaskip fyrir nokkrum árum – það er mun einfaldari eldamennska og jafnvel enn betra.
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Ég elska áramótin, jafnvel meira en jólin. Þau marka ákveðin þáttaskil og nýtt upphaf. Mér finnst mikilvægt að nota þessi tímamót til að fara yfir árið, gefa sér tíma yfir daginn til að dvelja aðeins við árið sem er að líða og þakka fyrir áskoranirnar og tækifærin. Mér finnst gott að skrifa smá pistil þar sem ég fer yfir árið í máli og myndum. Ég strengi samt ekki eiginleg áramótaheit, enda lífið flæði, en ég set mér alltaf einhver ný markmið.

Hvernig leggst nýja árið í þig? Nýja árið leggst vel í mig, enda ár hestsins. Fram undan eru alls konar viðburðir í persónulega lífinu, yngsti fjölskyldumeðlimurinn ætlar að fermast um páskana og þessi tvö eldri stefna á að útskrifast frá HR í vor, sem er eitthvað sem allir foreldrar elska. Árið 2026 er kosningarár sem er mjög spennandi en á sama tíma held að árið verði einnig krefjandi á mörgum sviðum fyrir ríki og sveitarfélög. Ég er bjartsýn að eðlisfari og upplifi að tækifærin séu oft einmitt dulbúin í þeim verkefnum sem lífið færir okkur, ef við erum aðeins fús til að fara í gegnum þau. Ég segi því bara „fulla ferð árið 2026!“
