Ómar og Sveitasynir syngja með karlakórnum

Í dag munu Ómar Diðriksson og Sveitasynir og Karlakór Rangæinga leiða saman hesta sína á tvennum tónleikum í nýju menningarhúsi að Dynskálum 8 á Hellu.

Tónleikarnir bera heitið „Öðruvísi en áður“ sem verða orð að sönnu, þar sem flutt verða gömul lög í nýjum búningi auk nýrra laga. Guðmundur Eiríksson píanóleikari Sveitasona hefur raddsett nokkur af þeirra lögum fyrir karlakór en einnig verða flutt önnur lög í nýjum og skemmtilegum útsetningum fyrir Sveitasyni og karlakór.

Þá munu blásarar úr Stórsveit Suðurlands koma við sögu á þessum skemmtilega viðburði.

Fyrri tónleikarnir eru kl. 16 og þeir síðari kl. 21. Miðinn kostar 2.000 kr. Frítt er fyrir 12 ára og yngri á fyrri tónleikana.