„Öll börn eru listræn“

Ljósmynd/Aðsend

Í sumar verður listsmiðja við ströndina fyrir krakka á aldrinum sjö til sextán ára. Kennt verður BrimRót sem er staðsett á efri hæð Gimli á Stokkseyri.

Það er myndlistarkonan Alda Rose sem sér um listsmiðjuna en hún hefur komið að mörgum verkefnum og smiðjum í gegnum tíðina. Sem dæmi má nefna viðburði fyrir Menningarnótt í Reykjavík hjá Íslenskri grafík, smiðjur og sýningar barna og unglinga í tengslum við Barnamenningarhátíð og margt fleira.

„Mér finnst ótrúlega gaman að kenna börnum myndlist. Þegar ég byrjaði með sumarlistasmiðjuna í fyrra fannst mér einmitt lítið í boði af myndlistarnámskeiðum fyrir börn og ég vildi reyna að auka við frístundaflóruna í Árborg,“ segir Alda í samtali við sunnlenska.is.

Alda segir að hún hafi orðið vör við að það séu fleiri myndlistarnámskeið í boði núna en í fyrra og það sé mjög gleðilegt. „Ég vona að það haldi áfram að aukast og blómstra. Við höfum líka fjöruna, þessa yndislegu náttúruperlu í bakgarðinum sem er endalaus uppspretta sköpunar og innblásturs og ég tel kjörið að vinna með hana á námskeiðinu og efla umhverfisvitund barna.“

Alda Rose í vinnustofu sinni í Brimrót á Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fjölbreytnin alls ráðandi
„Ég hef í flestum mínum smiðjum reynt að tengja listina við umhverfið og náttúruna og útfærslan er fjölbreytt. Börnin rannsaka umhverfi sitt og fá  t.d. að búa til sínar eigin bækur, kynnast ólíkum grafík aðferðum, teikna, mála úti og inni og jafnvel búa til náttúrulistaverk. Við notum efnivið úr náttúrunni til að þrykkja á pappír og skapa skúlptúra. Öll verkefnin eru þannig að það er öllum kleift að framkvæma þau,“ segir Alda sem er myndlistarkona í grunninn en hún lauk einnig master í listgreinakennslu við LHÍ 2012.

Hópnum er skipt í tvo hópa, fyrri hópurinn er fyrir krakka á aldrinum sjö til tólf ára og sá seinni er fyrir krakka á aldrinum þrettán til sextán ára.

„Á seinna námskeiðinu sem er fyrir unglinga einbeitum við okkur meira að teikningu og grafík. Aðal áherslan á því námskeiði er silkiþrykkið sem er alltaf mjög vinsælt, en það er m.a. notað til þess að þrykkja myndir á fatnað, taupoka, pappír eða einhvern annan efnivið. Krakkarnir hanna þá eitthvað mótív sem verður hægt að þrykkja á boli t.d. Krakkarnir fá líka að prófa fleiri grafík aðferðir þar sem ég bý svo vel að vera með litla grafík vinnustofu sem býður uppá fjölbreytta vinnuaðferðir. Börn æfast í því að útfæra hugmyndir sínar og læra nýja tækni á sviði myndlistar,“ segir Alda.

Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt að finna rétta tjáningarformið
Ekki er nauðsynlegt fyrir krakkana sem sækja námskeiðið að hafa listrænan bakgrunn eða vita mikið um listir. „Öll börn eru listræn og spurningin er meira um að finna þeim þann miðil sem þau tengja best við og þar fæ ég að spreyta mig að finna þeim farveg þar sem þau fá öll að njóta sín. Börn eru svo miklu hugmyndaríkari en við forritaða fullorðna fólkið og það er gaman að fylgjast með þeim pæla og skapa. Öll börn eiga að hafa jöfn tækifæri að efla sína styrkleika og sækja sín áhugamál,“ segir Alda.

Sem fyrr segir eru smiðjurnar tvær og eru þær ætlaðar öllum börnum. „Sérstaklega þeim sem vilja prófa eitthvað öðruvísi á sviði myndlistar og dýpka þekkingu og færni. Smiðjan er fyrir öll börn hvort sem þau búa í Árborg, Reykjavík eða Tíbet,“ segir Alda.

Ljósmynd/Aðsend

List er valdeflandi
Alda segir að það skipti öllu máli að rækta listræna hæfileika hjá börnum. „Það er misskilningur að listgreinar séu bara fyrir einhverja útvalda og henti bara þeim sem ætla sér að verða listamenn. Ekkert frekar en þau sem æfa fótbolta ætla sér öll að verða atvinnufótboltamenn eða -konur í framtíðinni.“

„List er svo valdeflandi miðill sama hvar áhugamálin liggja. Listgreinar liggja alltaf þverfaglega yfir allar trissur, t.d. náttúruvísindi og sjálfbærnis pælingar svo eitthvað sé nefnt. Listgreinar efla gagnrýna og sjálfstæða hugsun sem er svo mikilvægt í dag með þetta stöðuga áreiti frá samfélagsmiðlum. Öll börn eiga að hafa jöfn tækifæri að efla sína styrkleika, tjá sig og sækja sín áhugamál,“ segir Alda að lokum.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinSigurður tekur við sem framkvæmdastjóri lækninga
Næsta greinPáll ráðinn skólastjóri í BES