Ölfusingar æfa Makalausa sambúð

Leikfélag Ölfuss hefur hafið æfingar á gamanleiknum Makalaus sambúð eftir Neil Simon. Leikstjóri er Eyjapeyjinn Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson.

Eftir leikritinu var einmitt gerð kvikmyndin The Odd Couple sem skartaði þeim Jack Lemon og Walter Matthau í aðalhlutverkum en ólíkt kvikmyndinni eru konur í aðalhlutverkum í þessari leikgerð. Guðmundur Lúðvík hefur meðal annars numið og leikið í Hollywood ásamt því að leikstýra hjá Leikfélagi Vestamannaeyja og Leikfélagi Keflavíkur svo dæmi séu tekin.

Í tilkynningu frá Leikfélagi Ölfuss segir að það sé ekki sjálfgefið að leikfélög í eins litlu samfélagi og Þorlákshöfn geti sett upp leiksýningu í fullri lengd á hverju ári.

„Á síðustu árum hafa ríkisstyrkir til áhugaleikfélaga í landinu farið lækkandi, sem gerir okkur enn erfiðara fyrir að halda starfsemi gangandi. Það er því algjörlega ómetanlegt hvað fyrirtæki í Þorlákshöfn hafa stutt vel við bakið á okkur í formi styrkja og eru okkar stærsti stuðningsaðili, þá hafa íbúar verið duglegir að sækja sýningar og aðstoða okkur á allan mögulegan hátt. Leikfélag Ölfuss þakkar fyrir sig og hlakkar til starfsins í vetur,“ segir í tilkynningunni.

Fyrri greinSkora á kvennaliðið í söngeinvígi
Næsta greinRennblautt og markalaust á Selfossi