Ólafur Arnalds í Skálholti

Næst síðasta helgi Sumartónleika í Skálholti er nú um helgina en þar koma m.a. fram Ólafur Arnalds og Skálholtskvartettinn.

Í dag, laugardag, verður boðið upp á þrenna tónleika og má segja að þar mætist ólíkir hljóðheimar. Klukkan 15 flytur Skálholtskvartettinn strengjakvartett í G-dúr op. 161 eftir F. Schubert sem er síðasti strengjakvartett Schubert og talinn eitt hans besta verk.

Klukkan 17 verður skipt algjörlega um gír en þá eru á dagskrá tónleikar undir yfirskriftinni “Helg naumhyggja”. Þar koma fram tónlistarmennir Ólafur Arnalds og Greta Salóme Stefánsdóttir fiðluleikari og flytja frumsamda tónlist eftir Ólaf sjálfan ásamt tónlist eftir Arvo Pärt.

Ólafur Arnalds er rísandi stjarna í tónlistarheiminum og hefur vakið athygli víða um heim en tónlist hans lendir á nokkuð gráu svæði milli popptónlistar og klassík, nokkuð dreymandi laglínur og stemning.

Í kvöld verður loks boðið upp á kammerklassík í Oddsstofu í Skálholtsbúðum.

Tónleikahelginni lýkur á Ensku gullöldinni, en á sunnudag og mánudag kl. 15 mun ensk 16. og 17. aldar hljóðfæratónlist hljóma í Skálholtsdómkirkju. Í messu sunnudagsins kl. 17 verður flutt tónlist af dagskrá helgarinnar.

Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum en gestir hvattir til að taka með sér frjáls framlög til að styrkja Sumartónleika í Skálholti sem í ár fagna 35. ára afmæli.