Ókeypis gæði – Hugarflug Leikfélags Selfoss

Eitt sem þarf ekki að fjölyrða um: Leikhúsið á Selfossi er frábært. Þar er rekið metnaðarfullt áhugaleikhús með óskaplega hæfileikaríku fólki, sem á hverju ári stendur fyrir sýningum sem sprengja skala, kalla fram tilfinningar og ná til áhorfenda. Þessar sýningar eru þrautæfðar og vandaðar og byggja á mikilli yfirlegu og smáatriðum. En slíkt sprettur úr jarðvegi sem í upphafi er frjór, galopinn og skapandi.

Í þessum jarðvegi fengu áhorfendur Hugarflugs 2019 að gramsa. Á facebooksíðu viðburðarins má finna eftirfarandi lýsingu: „Hugarflug er vettvangur fyrir alla sem langar til að stíga á svið eða vinna á bak við tjöldin að gera svo. Á Hugarflugi má gera það sem hugurinn girnist.“ Og það gerðu þau svo sannarlega!

Fáránlegur tímahringur
Sýnd voru fjögur stuttverk. Það fyrsta var Fiskar ganga ekki í skóm eftir Jón Özur Snorrason í leikstjórn Jónheiðar Ísleifsdóttur. Leikarar voru Rebekka Lind Jónsdóttir og Ingberg Örn Magnússon. Verkið sýndi marglaga heim í fleiri en einni merkingu. Tíminn er hringlaga og í raun marklaus, því upplifun hvers og eins setur á hann mark sitt. Hressandi byrjun á kvöldi með litum, leikmynd og tónlist og bæði höfundum og leikurum tekst að kafa nokkuð djúpt í fáránleikaleikhúsið á stuttum tíma. Hann (sko tíminn) er hundur sem í lokin tekst að bíta í skottið á sér, eða sporðinn, ef vill.

Var þetta gamantráma?
Annað verkið, valdir kaflar úr ljóðabókinni Fræ sem frjóvga myrkrið eftir Evu Rún Snorradóttur. Í leikstjórn Halldóru Óskar Öfjörð. Leikarar eru Birta Sólveig, Emma og Jónheiður. Ég viðurkenni að ég kom mest til að sjá þetta. Bókin hennar Evu Rúnar, sem hlaut meðal annars Maístjörnuna 2019, hitti mig beint í hjartað, líkt og konurnar sem þarna stigu á svið. Textinn er svo meinhæðinn og sammannlegur. Grátbroslegt, það er orðið, og það var magnað að sjá hann lifna. Samlíðanin, sem er lykillinn að ljóðalestri, verður alltaf einhvernvegin sterkari þegar textinn er lesinn upphátt, hvað þá lagður leikkonum í munn. Þarna voru þær komnar, venjulegu konurnar með óþægilegu söguna. Söguna sem við erum vön að slá uppí grín, en er kannski aðeins meiri alvara, fyrnd alvara. Salurinn svaraði, eins og samfélagið, fyrst hló hann, svo var hann ekki alveg viss, og í lokin hló hann bara alls ekki. En þá tóku konurnar á sviðinu upp tuskuna og skelltu henni spírablautri framaní okkur aftur, og skellihlógu að öllu saman. Var þetta fyndið? Dauðansalvara? Gamantráma?

Smáfarsi með öllum réttu innihaldsefnunum
Gamanið tók að minnsta kosti völd í næsta verki, Brúðkaupi aldarinnar, eftir Viktor Inga Jónsson. Jónheiður leikstýrði, Birgitta Brynjarsdóttir og Hafsteinn Óskar Kjartansson léku. Verkið er minifarsi sem uppfyllir öll skilyrði þess vanmetna listforms. Við höfum hurðaskelli, klúður, ástarsamband sem fer út um þúfur og söguþráð með dramatískum endi. Hjónin voru bæði trúverðug og skemmtileg. Miðað við viðbrögð salarins tengdu 92% karlmannanna við hjáleiðina sem karlinn fór í lífinu og 88,5% kvennanna við viðbrögð eiginkonunnar. Vel lukkuð leikhúsupplifun.

„Bölvuð vitleysa er þetta!“
Lokaverkið, Nærbuxur, var einnig í höndum Halldóru Öfjörð, leikið af Emmu og Birtu Sólveigu. Það er freistandi að lesa það í samhengi við hitt verkið sem Halldóra leikstýrði þetta kvöld. Þriðjubylgufemínismi, pínu óþægileg en jafnframt spaugileg nálgun á það, hvernig frelsið getur verið helsi. Þróunin svo hröð, upplýsingin svo mikið að það er erfitt að fóta sig þar, finna sig. Viðbrögðin voru tilætluð, þegar umræður um rakadrægni túrnærbuxna stóðu sem hæst á sviðinu heyrðist úr salnum, „bölvuð vitleysa er þetta!“ með rödd sem var eldri en internetbyltingin. Kannski er þetta bölvuð vitleysa, og konur ennþá ætlaðar til að blæða út. En hverju?

Allir eftirréttirnir á seðlinum
Hafiði farið á draumastefnumót þar sem mótstefnandinn er ægilega sparilegur og segir að þú megir fá alla eftirréttina á matseðlinum? Ekki ég, en þannig var upplifunin af lokahnykknum þarna í gær. Fjögur söngatriði og einn ljóðagörningur með tónlist. Afrakstur Masterclass námskeiðs með Kristjönu Stefáns sem haldið var í vor. Hvílíkar raddir og kraftur! Ég saknaði samt íslenskunnar í söngnum, en Halldóra bætti það svolítið upp með ljóðaflæðinu sínu.

Niðurstaðan er sú, að hér er gróska. Þetta var ókeypis kvöld og mætingin var ágæt, en á svona kvöldi á að vera stappað út úr dyrum. Það er nefnilega dýrt að fara í leikhús og sjálfsagt að grípa gæsina þegar hún gefst, sá sem árla rís fær ókeypis ís sagði maðurinn ekki að ástæðulausu. Ég get líka lofað ykkur að það eru ekkert endilega meiri gæði á rándýrum sýningum annarsstaðar. Vonandi sjáum við þessi fræ vaxa upp seinna.

Harpa Rún Kristjánsdóttir

Fyrri greinAlelda bifreið í Mýrdalnum
Næsta greinSýningunni Litla-Hraun lýkur