Ofurhetjur í sumarlestri á Selfossi

Undirbúningur fyrir sumarlestur er nú í fullum gangi í Bókasafni Árborgar á Selfossi. Sumarlestur er ókeypis lestrarhvetjandi námskeið fyrir krakka í 2. – 5. bekk, þau mega vera yngri eða eldri en viðmiðunin er að þau séu orðin stautfær í lestri.

Tveir hópar hafa verið í sumarlestri og hittast þeir einu sinni í viku þar sem börnin fá ýmist fræðslu og/eða skemmtun. Í hverri viku er dregið úr happdrætti þar sem börnin fá skemmtilega vinninga.

Sumarlesturinn endar með miklu fjöri í ratleik þar sem krakkarnir leita að vísbendingum og leysa þrautir.

Markmið sumarlestrar er að viðhalda lestrarhæfni og kynna ævintýraheim bóka fyrir börnum. Í sumar er þemað Ofurhetjur.

Sumarlesturinn hefst miðvikudaginn 6. júni k. 13:00 og þá mæta allir sem ætla að taka þátt í sumarlestrinum en síðan verður börnunum skipt upp í hópa fyrir og eftir hádegi eftir því hvað hentar. Sumarlesturinn er alla miðvikudaga í júní frá og með 6. júní.

Skráning í sumarlestur er nauðsynleg. Þátttökublöðum hefur verið dreift í grunnskólum sveitarfélagsins en einnig er hægt að nálgast þau í afgreiðslu bókasafnsins eða senda tölvupóst á netfangið: afgreidsla@arborg.is

Fyrri greinLjúfir tónar í Bókakaffinu
Næsta greinTíu ár í dag frá Suðurlands-skjálftanum