Öðlingarnir syngja í Hlöðunni að Kvoslæk

Sönghópurinn Öðlingar.

Sönghópurinn Öðlingar úr Rangárvallasýslu syngur sín uppáhaldslög undir stjórn Guðjóns Halldórs Óskarssonar á tónleikum í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð laugardaginn 6. október kl. 15:00.

Efnisskráin samanstendur af uppáhaldslögum Öðlinga, lög sem hafa fylgt hópnum í gegnum árin. Sum hafa heyrst við útfarir en flest við önnur tilefni.

Öðlingarnir voru stofnaðir 1997. Í Rangárvallasýslu vantaði karlakór til að syngja við útfarir en mönnum fannst ómögulegt að utanaðkomandi karlakórar væru fengnir til að syngja ef óskað var eftir karlakórasöng. Því fór svo að nokkrir félagar úr Karlakór Rangæinga tóku sig saman og stofnuðu lítinn sönghóp til að sinna þessu mikilvæga hlutverki.

Síðan eru liðin 21 ár, útfarir sem Öðlingar hafa sungið við nálgast hálft þúsund auk fjölda annara tilefna. Til dæmis syngja Öðlingar oft í Sögusetrinu fyrir Hótel Rangá fyrir erlenda hópa á vegum hótelsins. Stjórnandi Öðlinga frá upphafi er Guðjón Halldór Óskarsson.

Í sumar hafa verið haldnir þrennir tónleikar á Kvoslæk og hefur margmenni sótt alla viðburðina. Húsfyllir hefur verið þegar heimamenn koma fram og verður örugglega líka næstkomandi laugardag.
Menningarstarf að Kvoslæk er í sumar styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands, Fullveldissjóði, Félagi íslenskra hljóðfæraleikara og Tónlistarsjóði.
Fyrri greinFjallkonan í Húsinu
Næsta greinMargt að skoða í Víkinni