Óður til sköpunargleðinnar

„Það má segja að þessi ljóð hafi verið í kollinum á mér í nokkur ár,“ segir Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld um aðdraganda þess að hún samdi tónverk við sögur og ljóð Þórarins Eldjárns, en nýverið kom út á bók og geisladiski, söngleikurinn Björt í sumarhúsi, eftir þessa tvo listamenn.

Um er að ræða samstarfsverkefni sem varð til fyrir nokkrum árum. Í upphafi þessa árs var settur á svið söngleikur með sama nafni en nú hefur verið bætt um betur og búið er að koma verkinu bæði á prent og hljómdisk. Það er fyrirtækið Töfrahurð, tónlistarútgáfa sem gefur verkið út. Bókin er ríkulega myndskreytt af Sigrúnu Eldjárn og henni fylgir geisladiskur þar sem hlýða má á verkið í heild sinni í flutningi frábærra tónlistarmanna.

Tveggja ára ferli
Texti söngleiksins er byggður á ljóðum úr bók Þórarins, Gælur, fælur og þvælur, og fær orðasnilld höfundar að njóta sín í léttri og skemmtilegri tónsetningu Elínar.

„Þetta hófst kannski með því að mér var gefin í afmælisgjöf bók með ljóðum Þórarins og tónarnir hófu að myndast,“ segir Elín. Hún leitaði til Þórarins um að skrifa sögur í kringum ákveðin ljóð og hann tók vel í það.

Elín segir það hafa tekið þau um tvö ár að koma verkefninu á koppinn með öllu. „Þetta fór virkilega vel af stað, og ég held að ég hafi kannski verið um eitt ár að skrifa tónlistina,“ segir Elín. Hið sama hafi átt við um skrif Þórarins. Í kjölfarið tók við vinna við að setja upp sýninguna, ráða flytjendur og æfa og fleira sem þarf að gera við slíka uppsetningu. Elín segir unnið að því að sýna söngleikinn víðar um landið.

Það er Björt í öllum börnum
„Við vorum bara á kaffihúsi og velta fyrir okkur nafni á söngleikinn, og það má segja að þetta sé svona lúmskur Þórarins húmor,“ segir Elín um nafnið á verkinu. „Björt er ekkert lík Bjarti í Sumarhúsum, en hún heitir bara Björt og fór upp í sumarhús með ömmu sinni og afa,“ bætir hún við. Björt er enda nútímabarn sem verður að finna sér eitthvað að gera í sveitinni, þar sem snjallsíminn virkar ekki. Verkið sé því nokkurskonar óður til sköpunargleðinnar, og verður hálfgerður farsi eða ævintýri. „Þetta er eitthvað sem allir þekkja með nútímabarnið,“ segir Elín að lokum.

Fyrri greinGleðileg jól!
Næsta greinÍbúafundur um heilsugæslu í janúar