Nýtt lag frá Karitas Hörpu

Á dögunum kom út þriðja smáskífa Karitasar Hörpu af væntanlegri plötu hennar. Platan hefur verið í bígerð í þó nokkuð langan tíma en vegna barneigna, Covid og verkfalla hefur ferlið dregist en loks er kominn settur útgáfudagur, 15. janúar 2021.

Lagið I love you var samið, eins og flest lög Karitasar, sem einskonar úrvinnsla tilfinninga og atburða. Hún var óviss um hvort hún myndi nokkurntíman gefa lagið út enda persónuleg reynsla og þeim getur stundum verið erfitt að deila með umheiminum. Eftir umhugsun og tíma fann hún sig knúna til að deila sínum tilfinningum í von um að einhver finndi huggun, skilning og tengingu – að viðkomandi upplifði sig ekki einan.

Þegar kom að því að vinna lagið í stúdíó vildi Karitas bæta aðeins við öðrum blæ og fannst henni enginn annar koma til greina en Svavar Knútur, henni til mikillar gleði var hann opinn fyrir því og syngur með henni í laginu ásamt því að spila á ukulele.

Lagið er hjartnæmt, angurvært en auðvelt í hlustun, það ætti að snerta við hinum hörðustu. Smáskífu “cover-ið” hannaði Karitas Harpa og teiknaði með aðstoð Þyrí Imsland. Lagið er síðan pródúserað af hinni amerísku Zöe Ruth Erwin, sem hefur verið að gera góða hluti í tónlistarsenu Íslands undanfarin misseri.

Fyrri greinAnna ráðin þjóðgarðsvörður á norðurhálendi
Næsta greinJohanna Budwig og meðferð hennar við gigt, hjartasjúkdómum, krabbameini og öðrum sjúkdómum