Nýr geisladiskur með sálmum sr. Valdimars

Kirkjukór Stóra-Núps- og Ólafsvallasókna ásamt Þorbjörgu Jóhannsdóttur organista standa að útgáfu nýs hljómdisks, með sálmum sr. Valdimars Briem (1848-1930).

Diskurinn ber nafnið Ó, syng þínum Drottni, og inniheldur nokkra valda sálma séra Valdimars á Stóra-Núpi. Það er kirkjukór sóknanna sem syngur sálmana undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur organista.

Af þekktum sálmum sem kórinn syngur má nefna Þú Guð sem stýrir stjarnaher, Ég horfi yfir hafið, Í dag er glatt í döprum hjörtum og Nú árið er liðið. Alls eru á diskinum sungnir ellefu sálmar úr sjóði sr. Valdimars sem tvímælalaust má flokka sem eitt besta og afkastamesta sálmaskáld okkar Íslendinga.

Auk sálmanna leika þau nokkur orgelverk á diskinum Þorbjörg Jóhannsdóttir organisti og Haukur Guðlaugsson, fv. söngmálastjóri kirkjunnar.

Upptökur á diskinum fóru fram í Skálholtskirkju sl. vor og var öll hljóðvinnsla unnin af Halldóri Víkingssyni. Umgjörðin utan um hljómdiskinn er sérlega vönduð en á forsíðu er málverk af sálmaskáldinu sr. Valdimar Briem eftir Ásgrím Jónsson listmálara. Þá eru einnig myndskreytingar við einstaka sálma eftir Katrínu Briem.

Sóknarpresturinn, sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, ritar formála og fjallar þar um sálmakveðskap sr. Valdimars.

Hljómdiskurinn er seldur í Bókakaffinu á Selfossi en auk þess má nálgast hann hjá kórfélögum.

Fyrri greinMargrét og Rikharð Atli fimleikamenn ársins
Næsta greinLeitað að vitnum að ákeyrslu