Nýr bæklingur um gömlu húsin á Eyrarbakka

Góður rómur var gerður að nýútkomnum bæklingi um gömlu húsin á Eyrarbakka sem kynntur var í Húsinu á Eyrarbakka á nýliðinni safnahelgi.

Hann hefur að geyma þrívíddarkort með myndum af öllum gömlu húsunum sem enn standa í þorpinu ásamt textum um ellefu þeirra. Á bakhlið kortsins er texti eftir Ingu Láru Baldvinsdóttur um þróun byggðarinnar, húsagerðir á Eyrarbakka og húsavernd í þorpinu. Í kynningartexta bæklingsins segir: „Heildstæð götumynd frá aldamótunum 1900 og samstæðar húsaþyrpingar setja svip sinn á þorpið Eyrarbakka og skapa það sérstaka andrúmsloft sem einkennir það. Hvernig mótaðist þetta þorp og af hverju hafa svo mörg gömul hús varðveist þar?“

Bæklingurinn er gefinn út af Eyrarbakkaklasa, Byggðasafni Árnesinga og Kirkjustræti ehf með styrk frá Menningarráði Suðurlands og Húsafriðunarsjóði. Upphaf hans má rekja til almenns borgarafundar snemma árs 2009 á vegum Eyrarbakkaklasans þar sem óskir komu fram um að kynna betur húsasögu Eyrarbakka. Bæklingurinn á tvímælalaust eftir að koma að góðum notum fyrir ferðamenn sem koma gagngert á Bakkann til að skoða gömlu húsin en einnig fyrir aðra sem vilja kynna sér þennan þátt menningarsögu staðarins.

Ritstjóri bæklingsins er Inga Lára Baldvinsdóttir. Hönnun og umbrot voru í höndum hjónanna Ágústu Ragnarsdóttur og Þórarins F. Gylfasonar sem eiga og reka hönnunarstofuna Argh í Þorlákshöfn og á Þórarinn heiður af því að teikna þrívíddarkortið sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Samhliða voru gefin út tvö veggspjöld tengd gömlu húsunum á Eyrarbakka.