Ný verðlaunabók frá Sæmundi

Út er komin á vegum bókaútgáfunnar Sæmundar á Selfossi bókin „Tvöfalt gler“ eftir Halldóru Thoroddsen.

Fyrir þessa sögu hlaut Halldóra Fjöruverðlaunin 2016, bókmenntaverðlaun kvenna, þann 21. janúar í flokki fagurbókmennta. Sagan, sem nú kemur út sem bók, var birt í tímaritröðinni 1005 á síðasta ári.

Halldóra Thoroddsen hefur áður sent frá sér þrjár ljóðabækur og tvö smásagnasöfn.

Á bókarkápu segir: Í þessari nóvellu er skrifað um gamalt fólk sem sjaldan er ljáð rödd í íslenskum skáldskap. Þetta er stór saga þótt stutt sé og tekst höfundi sérlega vel að lýsa miklum tilfinningum í fáum en dýrmætum orðum. Tvöfalt gler er bæði gegnsætt og einangrandi. Á bak við það leynist líf sem lifað er af ítrustu kröftum, líf sem hamast á glerinu eins og fluga að hausti sem enn er sólgin í birtuna.

Rökstuðningur dómnefndar Fjöruverðlaunanna er svohljóðandi:

Í Tvöföldu gleri er skrifað um konu á áttræðisaldri sem hefur nýlega misst eiginmann sinn. Þegar hún lendir óvænt í ástarsambandi stendur hún frammi fyrir spurningum um réttmæti þess að verða ástfangin á efri árum, en jafnframt sýnir saga hennar á einstakan máta fram á fegurð slíkra ásta.

Tvöfalt gler er þétt, skrifuð af einstöku næmi og hún er „stór“ þótt hún sé stutt. Höfundur dregur upp eftirminnilega mynd af lífsþorsta og ástarþrá manneskju sem dafnar og vex þegar dauðinn er allt í kringum hana. Halldóru Thoroddsen tekst sérlega vel að lýsa miklum tilfinningum í fáum en dýrmætum orðum.

Verðlaunasagan Tvöfalt gler er lágstemmd og fögur – og stíllinn tær, ljóðrænn og sindrandi.

Fyrri greinIngigerður orðin 104 ára
Næsta greinMikil aukning í sölu á heilsuvörum