Ný sýning opnar á uppstigningardag

Á uppstigningardag, fimmtudaginn 13. maí kl. 16 verður sýningin ‘Að þekkjast þekkinguna’ opnuð í Listasafni Árnesinga.

Sýningin samanstendur af verkum 15 samtímalistamanna, sem allir varpa ljósi á tengsl þekkingar og myndlistar.

Samhliða sýningunni hafa verið skipulagðar umræðudagskrár í safninu og hefst sú dagskrá n.k. sunnudag, 16. maí kl. 15 er heimspekingurinn Henry Alexander Henrysson og mannfræðingurinn Sveinn Eggertsson fjalla um þekkingu út frá hugmyndasögulegu, þekkingarfræðilegu og mannfræðilegu sjónarhorni. Auk þess munu Karlotta Blöndal og listamannateymið Hugsteypan ræða um viðfangsefni sýningarinnar út frá persónulegu sjónarhorni myndlistarmannsins með hliðsjón af eigin verkum á sýningunni.

Listamennirnir sem verk eiga á sýningunni eru Anna Líndal, Birta Guðjónsdóttir, Einar Garibaldi Eiríkssson, Huginn Þór Arason, Hugsteypan, en það er heiti listatvíeykisins Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdís Jóhannesdóttur, Jeannette Castioni, Karlotta Blöndal, Olga Bergmann, Ólafur Sveinn Gíslason, Ósk Vilhjálmsdóttir, Pétur Örn Friðriksson, Sara Björnsdóttir, Sirra Sigrún og Unnar Örn. Á sýningunni eru ýmist eldri verk sett í nýtt samhengi eða ný verk unnin sérstaklega í tilefni hennar. Saman mynda þau áhugavert innlegg í orðræðuna um þekkingu og samtímamyndlist.

Sýningin mun standa til 11. júlí og er styrkt af Menningarráði Suðurlands. Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12-18. Þar er notaleg kaffistofa, barnahorn og leskró þar sem hægt er að líta í ýmis rit um myndlist. Aðgangur er ókeypis.

Sjá nánar á www.listasafnarnesinga.is