Ný sýning í Listasafni Árnesinga

Sýningin Tíminn í landslaginu verður opnuð í Listasafni Árnesinga í Hveragerði í dag kl. 15. Sýningin er önnur í röð þriggja sem tileinkaðar eru þeim tímamótum að 50 ár eru síðan Bjarnveig Bjarnadóttir og synir gáfu Árnesingum stóra málverkagjöf sem lagði grunninn að stofnun safnsins.

Alls gáfu þau sjötíu og þrjú verk á nokkra ára tímabili og þar af eru nítján eftir Ásgrím Jónsson, en hann var fæddur og uppalinn í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóanum og var náskyldur gefendunum.

Hvert tímaskeið mótar sýn manna á landslagið hvort sem litið er til náttúrunnar eða málverksins. Ný kynslóð horfir á hið liðna öðrum augum en samtíðamenn. En til þess að skoða tengsl og rof milli kynslóða þótti forvitnilegt að skoða í samhengi við verk Ásgríms Jónssonar (1876-1958), verk Arngunnar Ýrar (1962).

Á sýningunni eru því til sýnis verk tveggja listamanna af sitthvoru kyni, tveggja kynslóða, einstaklinga sem annars vegar námu í Evrópu en hins vegar í Bandaríkjunum. Sýningarstjóri er Jón Proppé.

Bjarnveig Bjarnadóttir var fyrsti forstöðumaður Ásgrímssafns sem er til húsa að Bergstaðastræti 74 í húsi sem Ásgrímur, við fráfall sitt, hafði ánafnað íslensku þjóðinni ásamt öllum listaverkum sinum í eigin eigu. Ásgrímssafn er nú deild innan Listasafns Íslands og naut Listasafn Árnesinga góðs af samstarfi við þessar stofnanir við undirbúning sýningarinnar. Öll verkin eftir Ásgrím koma úr safneign þessarra þriggja safna en verk Arngunnar koma víða að.

Listasafn Árnesinga er opið alla daga kl. 12 – 18 og er aðgangur ókeypis.

Fyrri greinFjóla varð önnur í Stokkhólmi
Næsta greinLoksins sigur hjá Árborg