Ný ljóðabók Matthíasar

Út er komin ný ljóðabók eftir Matthías Johannessen, Við landamæri. Bókin geymir úrval ljóða skáldsins frá síðustu fimm árum. Ástráður Eysteinsson valdi og ritar eftirmála.

Það er bókaforlagið Sæmundur á Selfossi sem gefur út bókina.

Þegar hversdagsleikanum sleppir
tekur Sprengisandur við.

Enn hefur Matthías sig til flugs og skyggnir loftin yfir borginni og landinu. Lesandi fer með honum að mörkum drauma og ólífis, þrædd eru landamæri minninga, sýnar og blindu, rýnt eftir íslenskri arfleifð í þokunni og spurst fyrir um skil guðs og dýrs í mannverunni. Allt með fullri vitund um það hversu tvíeggjað flug mannsins er og hugmyndaauðgi.

Hugmynd í helfjötrum kúpunnar
er sem fiðrildi í fangelsi púpunnar
eða fálki í martröð rjúpunnar.

Enda missir skáldið aldrei jarðarsýn, og sem fyrr er hún íslensk en nær einnig víðar um veröld.

Ég nýt þess enn að hafa hvílzt í þér
mitt hljóða land sem jökulvötnin ber
af örlöglausum öræfum til mín
með undrakrafti líkt og gamla Rín.

Fyrri greinNýr dýnuvöllur tekinn í notkun á Hvolsvelli
Næsta greinSkáldastund og jólasýning