Bókin Eyrarbakki – Byggð í mótun – Horfin hús 1878-1960 er komin út. Höfundar hennar eru hjónin Inga Lára Baldvinsdóttir og Magnús Karel Hannesson á Eyrarbakka.
„Við erum búin að vinna að þessu í rúmlega tvö ár. Þegar við lukum við árbók Ferðafélags Íslands um Flóann þá fór Magnús að tala um að það hafi komið sér svo mikið á óvart hvað samstarfið var gott við skrifin, svo að ég segi bara heiðarlega frá,“ segir Inga Lára glettin í samtali við sunnlenska.is. „Þá stakk hann upp á því að við myndum skrifa um húsin á Eyrarbakka en mér fannst áhugaverðara að skrifa um hús sem væru horfin, heldur en það sem er uppistandandi.“
Hús koma og hús fara
Í bókinni er varpað ljósi á þróun þéttbýlis á Eyrarbakka á tímabilinu en ætla má að um 300 hús hafi staðið um lengri eða skemmri tíma á Bakkanum á árunum 1878 til 1960 en aðeins um 120 þeirra standa enn.
„Það er hluti af mótun byggðarinnar á Eyrarbakka að hús koma og hús fara og önnur koma í staðinn. Í bókinni segjum við frá 187 húsum á þessu tímabili frá 1878 til 1960. Tímabilið ræðst af því að árið 1878 þá er tekinn upp nýr skattur, þannig að þá þurfti að borga í fyrsta skipti húsaskatt, skatt af húsum í þéttbýli,“ segir Magnús.
„Þá fara menn að lista upp eignirnar og í upphafi eru þetta bara tveir, þrír eigendur; Lefolii-verslun, Þorleifur Kolbeinsson og Einar „borgari“ Jónsson, þessir þrír aðilar áttu megnið af þeim húsum sem hér voru metin. Kjarni húsanna á Eyrarbakka voru hins vegar torfhús og þau voru ekki metin, þau náðu ekki mati. Hús varð að ná 500 krónum í mati til þess að vera skattlagt,“ bætir Inga Lára við.
Á þriðja hundrað ljósmyndir í bókinni
Bókinni er skipt upp í þrjá inngangskafla, um þróun þéttbýlis á Eyrarbakka, húsgerðir eftir byggingarefnum og um útihús, sem voru forsenda afkomu íbúanna til lands og sjávar. Síðan er fjallað um hvert og eitt þeirra 187 húsa sem horfin eru frá þessu tímabili og heimildir eru til um, líftíma þeirra, viðbyggingar og efnivið, sem og íbúa þeirra. Í inngangskafla að húsaskránni er farið yfir þær heimildir sem skráin byggir á.
Bókin er ríkulega myndskreytt en í henni eru birtar á þriðja hundrað ljósmyndir og um 50 tilgátuteikningar sem Magnús vann að og byggðar eru á upplýsingum úr skráningu brunabótamats árið 1916. Öllu þessu er ætlað að gefa lesendum gleggri mynd af blómaskeiði þessa sögufræga verslunarstaðar Suðurlands og húsakostinum sem er til umfjöllunar.
„Það er til talsvert mikið af myndum frá þessum tíma héðan af Bakkanum, til dæmis í samanburði við Stokkseyri þá er mun meira til af myndum frá Eyrarbakka. Hér var mikið af áhugaljósmyndurum og þeir hafa auðvitað verið á Stokkseyri líka en munurinn er sá að hér er búið að vinna gríðarlega mikið í skráningu og flokkun á myndum,“ segir Inga Lára.
Fréttu ýmislegt nýtt
Margir koma við sögu í bókinni, en um 760 nöfn karla og kvenna, auk félagasamtaka, stofnana og báta er getið í henni. Þau Inga Lára og Magnús segja að vinnan við bókina hafi verið skemmtileg og mjög fróðlegt hafi verið fyrir þau að fara í gegnum heimildirnar.
„Við fréttum ýmislegt nýtt á meðan við vorum að gera þetta, þó að við höfum verið að garfast í sögu Eyrarbakka í um 40 ár. Það voru til dæmis tvö fangahús hér á Eyrarbakka, sem aldrei hefur verið talað um,“ segir Inga Lára.
Magnús bætir við að „áður en Sýslunefnd Árnesinga ákvað að byggja þetta hús höfðu menn verið settir í gæsluvarðhald í smá herbergi í Húsinu. Við vitum nokkurn veginn hvar þetta fangahús, sem nefndist Fangaklefinn, stóð en svo var það úr sér gengið og ekki á hentugum stað, ofan í stígnum í gegnum þorpið. Þannig að nokkrum árum seinna var byggt hérna annað hús. Annað merkilegt við þetta er að seinna húsið verður síðan einkarekið á tímabili. Sýslunefndin var orðin leið á að reka húsið og samdi þá við Guðmund Ísleifsson á Háeyri um að taka yfir reksturinn. En svo var tukthúsið orðið lélegt og því var lokað og það liðu einhver tíu ár þangað til Eyrarspítali var tekinn undir fangelsi, þar sem nú er fangelsið á Litla-Hrauni,“ segir Magnús að lokum.
Útgefandi bókarinnar er Laugabúð ehf. og verður hún til sölu í samnefndri verslun á Eyrarbakka í sumar, hjá þeim Ingu Láru og Magnúsi.
