Ný bók frá Sæmundi

Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi hefur sent frá sér bókina „Mennirnir með bleika þríhyrninginn“ eftir Heinz Heger.

Bókin kom fyrst út í Þýskalandi 1972 en hefur ekki áður komið út á íslensku. Rit þetta er talið meðal höfuðrita í réttindabaráttu samkynhneigðra og markar djúp spor í mannréttindabaráttu síðustu áratuga. Hér segir Austurríkismaðurinn Josef Kohout sögu sína en hann dvaldi líkt og þúsundir annarra í fangabúðum nasista á stríðsárunum fyrir þær sakir einar að vera samkynhneigður.

Mennirnir með bleika þríhyrninginn er ekki aðeins vitnisburður um hrottaskap nasismans heldur einnig og ekki síður er hér velt upp almennri afstöðu mannsins til samkynhneigðra. Mennirnir sem merktir voru bleikum þríhyrningi voru lægstir allra í fangabúðunum og fengu eftir stríðið enga uppreins æru þrátt fyrir hryllilega meðferð.

„Þú verður að muna að það var margt um glæpamenn og samkynhneigða í Dachau. Ertu að biðja um minnismerki um þess háttar fólk?“ Þannig svaraði Hans Zauner bæjarstjóri í Dachau árið 1960 þegar hann var inntur eftir því hvort ekki verðskulduðu fleiri en gyðingar minnismerki á rústum fangabúðanna þar í bænum.

Bókinni fylgir vandaður eftirmáli Þorvalds Kristinssonar rithöfundar þar sem hann rekur setur frásögn höfundar í sögulegt samhengi. Guðjón Ragnar Jónasson framhaldsskólakennari þýddi.

Bókin er 160 blaðsíður og fæst í bókaverslunum um land allt.

Fyrri greinLést í slysi á Suðurlandsvegi
Næsta greinJazz-, Jass-, Djass-að í Listasafni Árnesinga