Notalegir tónleikar í Þorlákskirkju

Hefð er fyrir því að desembertónleikar Tóna við hafið séu milli jóla og nýárs í Þorlákskirkju. Þeir verða nú haldnir sunnudaginn 29. desember kl. 20 í Þorlákskirkju.

Oft hefur Jónas Ingimundarson, pianóleikari haft hönd í bagga með undirbúning tónleikanna og jafnvel komið fram, en nú eru það tvær ungar konur úr Þorlákshöfn sem efna til notalegra tónleika þar sem flutt verða jólalög í bland við aðra tónlist.

Það eru þær Ása Berglind Hjálmarsdóttir, sem hefur stjórnað tónlistarhópnum Tónum og Trix og tekið þátt í að skipulegga marga spennandi tónleika með Lúðrasveita Þorlákshafnar á síðustu árum, og Anna Margrét Káradóttir sem vakið hefur athygli fyrir flotta rödd sína, sem standa fyrir tónleikunum en í lið með sér fá þær þá Vilhjálm Inga Vilhjálmsson sem spilar á gítar og syngur og Jón Gunnar Biering Margeirsson sem spilar á gítar og kassa.

Tónleikarnir eru sunnudaginn 29. desember kl. 20:00.

Athugið að í síðasta tölublaði Sunnlenska birtust fyrir mistök tvær auglýsingar um tónleika í Þorlákskirkju af þessu tilefni og er beðist velvirðingar á því. Auglýsingin á bls. 32 er hin rétta.