Notalegir jólatónleikar með léttu gríni

Kórinn átti góðan æfingadag á Stað á Eyrarbakka á dögunum. Ljósmynd/Helga Guðrún Lárusdóttir

Miðvikudaginn 4. desember heldur Jórukórinn sína árlegu jólatónleika í Selfosskirkju. Uppselt er á tónleikana sem verða klukkan 20:30 og verða því aukatónleikar sama daga klukkan 18:30.

„Fyrri tónleikanir henta ef til vill betur fyrir þá sem koma lengra að eða mjög unga tónleikagesti, með mjúkri stemningu, þar sem er sérstaklega velkomið að taka með sér bangsa til að hlusta líka. Miðasala fer fram á heimasíðu kórsins og mega tónleikagestir búast við notalegri en skemmtilegri stemningu með léttu gríni og glensi eins og kórnum einum er lagið,“ segir Guðrún Lind Rúnarsdóttir, einn meðlima Jórukórsins í samtali við sunnlenska.is.

Guðrún Lind segir að síðasti vetur hafi verið kórnum góður. „Uppselt var á jólatónleikana í fyrra, þegar kórinn átti notalega jólastund með tónleikagestum. Kórinn hélt kvennakvöld á Risinu 15. febrúar þar sem einnig var fullt út úr dyrum og stemningin einstaklega skemmtileg. Kórveturinn kláraðist á mjög svo skemmtilegu verkefni, þegar kórinn ásamt einvala liði hljóðfæraleikara kom sér fyrir á tónleikastaðnum Sviðinu þann 2. maí og var það, eftir því sem við best vitum, fjölmennasti hópur tónlistarmanna sem hefur komið fram þar.“

Jórukórinn hóf svo aftur störf í haust en hann samanstendur af rúmlega 50 ungum og hressum söngkonum úr Árnessýslu sem æfa saman vikulega og koma konur alla jafnan endurnærðar út af æfingum.

Nýjar útsetningar og nýjir textar
„Jólalögin settu svip sinn á fyrstu æfingarnar enda var stefnan strax sett á að hafa djassað yfirbragð á dagskránni. Kórinn býr svo vel að því að hafa frábæra kórstýru, Unni Birnu Björnsdóttur, sem eflir okkur allar í að verða betri (kór)konur. Fyrir utan það að vera frábær kórstýra og tónlistarkona þá útsetur hún líka lög fyrir kórinn og gerir það sérstaklega vel. Kórinn býr einnig svo vel að því að eiga góðan textahöfund í sínum röðum, Helgu Guðrúnu Lárusdóttur, og höfum við áður sungið þekkt lög við texta frá henni. Þegar Unnur Birna og Helga Guðrún sameinast í sköpunargáfunni verður útkoman stórkostleg og verða lög á dagskrá tónleikanna í nýjum útsetningum með nýjum textum, eitthvað sem enginn má láta framhjá sér fara.“

„Góður kór er enn betri með góðu bandi og að þessu sinni mun kórinn njóta aðstoðar frá einstökum tónlistarmönnum. Pálmi Sigurhjartarson verður á píanói, Dagný Halla Björnsdóttir á kontrabassa og Skúli Gíslason á trommum. Auk þess sem kórinn syngur í heild sinni þá koma einnig fram einsöngvarar úr röðum kórsins ásamt leynigestum.“

„Kórinn átti góðan æfingadag laugardaginn 16. nóvember á Stað á Eyrarbakka, þar sem lögin á dagskránni voru fínpússuð til að tryggja okkar allra besta flutning fyrir tónleika gesti. Mynd- og hljóðbrot frá æfingadeginum og starfi kórsins, er að finna á samfélagsmiðlum kórsins og hvetjum við áhugasama til að fylgja kórnum þar ásamt því að skella sér á heimasíðu kórsins og tryggja sér miða á jólatónleikana þann 4. desember kl. 18:30 en uppselt er á tónleikana kl. 20:30,“ segir Guðrún að lokum.

Fyrri greinRíflegur afsláttur af gatnagerðargjöldum atvinnulóða á Flúðum
Næsta greinHrafnhildur Inga sýnir í Gallery Listaseli