Síðastliðinn sunnudag hélt rithöfundurinn, lögfræðingurinn og sjálfsþurftarbóndinn Fanney Hrund Hilmarsdóttir útgáfuhóf fyrir nýjustu bókina sína, Dreim – Dýr móðurinnar.
Útgáfuhófið fór fram í Vínstofu Friðheima að viðstöddu fjölmenni. Fanney kynnti verkið og sagði frá hugmyndavinnu og þróun sögunnar. Spiluð var tónlist á meðan hún las upp úr bókinni, en bókin inniheldur QR-kóða sem leiðir lesandann inn í hljóðheim hvers kafla og þar með dýpra inn í gróskumikla náttúruna og iðandi lífríki sögunnar.

Dreim – Dýr móðurinnar er hluti af hinum víðfeðma Dreim-heimi þótt hana megi lesa sjálfstætt. Undir æsispennandi og launfyndnu ævintýrinu er tekist á við aftengingu mannfólks og náttúru, skynleysi, skort á samhengi og þá afdrifaríkustu (sjálfs)blekkingu mannkyns: Að menn séu ekki dýr.
Að sögn gesta var notaleg og uppbyggileg stemning í útgáfuhófinu, þar sem áhersla var lögð á sköpunarferlið og mikilvægi Dreim-heimsins í starfi Fanneyjar. Sagan er náttúruhugvekja sem á erindi við unglinga, ungmenni og alla þá sem njóta lesturs fantasíubóka.


